Innlent

„Brussel er ekki í Evrópusambandinu“

Ingvar Haraldsson skrifar
Jón Gnarr borgarstjóri er kominn í nýtt hlutverk sem spjallþáttastjórnandi.
Jón Gnarr borgarstjóri er kominn í nýtt hlutverk sem spjallþáttastjórnandi.
Borgarstjóri Reykjavíkur, Jón Gnarr, sýnir á sér nýja en þó stórskemmtilega hlið sem þáttastjórnandi og samfélagsrýnir í nýjum sjónvarpsþætti. Þátturinn ber nafnið „Ísland Today“ og birtist á Youtube.

Þátturinn er í anda spjallþáttar Hangover leikarans Zach Galifianakis, „Between Two Ferns“.

Fyrsti viðmælandi Jóns er aðstoðarmaður hans Björn Blöndal. Björn er einnig efsti maður á lista Bjartar framtíðar í komandi borgarstjórnarkosningum í Reykjavík.

Í þættinum þjarmar Jón að Birni og vill að Björn svari af hverju Reykjavík gangi ekki í Evrópusambandið. Þegar Björn segir Reykjavík ekki geta gengið í Evrópusambandið spyr Jón hvort Berlín og Brussel séu ekki í Evrópusambandinu. Björn viðurkennir það en reynir að útskýra fyrir Jóni að borgir geti ekki gengið í Evrópusambandið.

Jóni finnst gott að fá þessa afstöðu Björns á hreint og segist vera kominn með frábæra fyrirsögn: „Brussel er ekki í Evrópusambandinu.“

Jón segir vel koma til greina að halda áfram á þessari braut þegar hann hætti sem borgarstjóri. „Margir ganga út frá því að ég ætli „aftur í grínið." Ég er ekki viss. Ég gæti alveg hugsað mér að vera með alvarlega viðtals- og fréttaskýringaþætti.“

Borgarstjórinn útlokar ekki að í framtíðinni muni þættirnir höfða til erlendra aðila. „Og ekkert endilega íslenskra heldur jafnvel alþjóðlegra og á ensku.“

Hægt er að sjá þennan nýja þátt hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×