Innlent

Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar undirritar kjarasamninga

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/vilhelm
Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, stærsta einstaka bæjarstarfsmannafélagið innan BSRB, undirritaði í nótt nýja kjarasamninga við Reykjavíkurborg.

Samningurinn gildir frá 1. febrúar 2014 og til loka apríl 2015. Laun hækka að lágmarki um 2,8% og ekki minni en 8000 kr. á mánuði fyrir dagvinnu í fullu starfi.

Tvær eingreiðslur verða greiddar, ein við upphaf samningstíma að upphæð 14.600 kr. og önnur þann 1. febrúar 2015 að upphæð 20.000 kr., desemberuppbót hækkar í 79.500 kr. og orlofsuppbót verður 39.500. Þá er kveðið á um breytingar á launatöflu og vaktafyrirkomulagi auk þess sem framlag til starfsmenntunar- og starfsþróunarsjóða hækkar um 0,1% frá 1. febrúar 2014.

Þá mun endurskoðun á á gildandi launatöflu og tengingu hennar við starfsmat fara fram fyrir lok september 2014 og í kjölfarið hafnar viðræður um mögulegar útfærslur á nýrri launatöflu sem samið verði um að taki gildi við upphaf næsta kjarasamnings aðila. Aðilar eru sammála um að við útfærslu á nýrri launatöflu verði horft til þess að starfsþróunarálag verði 1,5%.

Samhliða nýjum kjarasamningi gerði BSRB samkomulag við Reykjavíkurborg þar sem kveðið er á um að farið verði í að þróa aðferðafræði til að meta laun og launaþróun á opinberum og almennum vinnumarkaði.

Þegar þeirri vinnu er lokið munu aðilar meta hvort og þá hvernig hægt sé að nýta þá vinnu til að draga úr launamun milli almenns og opinbers vinnumarkaðar og hvernig hægt sé að koma því þannig fyrir að launaþróun milli markaða haldist í hendur. Samkomulag BSRB og Reykjavíkurborgar gerir líka ráð fyrir að launagögn Borgarinnar er varða félagsmenn BSRB verði aðgengileg bandalaginu svo hægt sé að fylgjast betur með launaþróun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×