Innlent

Íslendingar í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir kókaínviðskipti

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Einn mannanna var sýknaður af ákæru um vörslu á um 40 þúsund e-töflum, en þær fundust við húsleit í íbúð hans í Kaupmannahöfn.
Einn mannanna var sýknaður af ákæru um vörslu á um 40 þúsund e-töflum, en þær fundust við húsleit í íbúð hans í Kaupmannahöfn. vísir/getty
Þrír Íslendingar og Pólverji sem búsettur er hér á landi voru dæmdir í tveggja og hálfs árs fangelsi í Kaupmannahöfn í dag fyrir fíkniefnaviðskipti.

Um var að ræða að minnsta kosti 480 grömm kókaíns sem hald var lagt á árið 2012. Þá lagði lögregla hald á 26 þúsund dollara, sem samsvara yfir þremur milljónum króna.

Einn mannanna var hins vegar sýknaður af ákæru um vörslu á um 40 þúsund e-töflum, en þær fundust við húsleit í íbúð hans í Kaupmannahöfn. Ekki tókst að sanna að fíkniefnin væru í eigu mannsins.

Á danska fréttavefnum Fyens.dk er það sagt óvenjulegt að mennirnir hafi allir fengið jafnháa dóma þrátt fyrir ólíka aðkomu að viðskiptunum.

Lögregla í Danmörku og á Íslandi unnu saman að rannsókn málsins og voru fíkniefnin ætluð til sölu á Íslandi. Tveir mannanna voru handteknir hér á landi og framseldir til Danmerkur þar sem réttað var yfir þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×