Innlent

„Við eigum að standa með börnunum en ekki úreltu kerfi“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Auglýsing Halldórs féll í grýttan jarðveg hjá kennurum.
Auglýsing Halldórs féll í grýttan jarðveg hjá kennurum. Vísir/HVA
„Við eigum að standa með börnunum en ekki úreltu kerfi,“ segir Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Auglýsing á vegum Halldórs vakti reiði kennara, en í henni segir meðal annars:

„Skólakerfið hefur brugðist börnunum okkar en þrátt fyrir það fær það að hjakka í sama farinu án aðgerða.“ Þessi orð fengu Kennarasamband Íslands til þess að senda frá sér yfirlýsingu.

Í henni segir: „Innihald auglýsingarinnar er einnig í fullkomu ósamræmi við orð Halldórs Halldórssonar, borgarstjóraefnis Sjálfstæðisflokksins, þegar hann ávarpaði þing KÍ á þriðjudaginn. Þar sagðist hann vera talsmaður samstarfs og sátta í skóla- og menntamálum.

Halldór segir að með því að bregðast svona við séu kennarar að segja að þeir séu kerfið. „Kennarar eiga ekk að vera hluti af kerfinu, þeir eiga að gagnrýna kerfið. Þeir eru í fjötrum kerfisins, eins og nemendur og foreldrar.“

En ef við horfum þrjá áratugi aftur í tímann, þá kemur í ljós að Sjálfstæðismaður hefur gegnt stöðu menntamálaráðherra í 23 ár. Ber Sjálfstæðisflokkurinn því einhverja ábyrgð á þessu kerfi sem þú segir að hafi brugðist?

„Við berum öll ábyrgð á þessu. Við megum ekki fara í vörn fyrir þetta úrelta kerfi. Það er 200 til 300 ára gamalt. Við getum ekki verið sátt með að 30% drengja geta ekki lesið sér til gagns. Hver getur verið sáttur við það?“ spyr Halldór.

Hann leggur til að allir leggist á eitt. „Það eiga allir að segja: „Já, breytum þessu kerfi.“ Við hljótum að vilja skoða þetta gaumgæfilega. Kennarar eiga ekki að verja þetta úrelta kerfi, þeir eiga að taka þátt í að bylta því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×