Innlent

„Orðið nokkuð handahófskennt ef á að rukka bara svona hér og þar“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Dagbjört Bjarnadóttir, oddviti Skútustaðahrepps.
Dagbjört Bjarnadóttir, oddviti Skútustaðahrepps. MYND/EYRÚN BJÖRNSDÓTTIR
Sveitarstjórn Skútustaðahrepps fundaði um fyrirhugaða gjaldtöku landeigenda í Reykjahlíð á dögunum og hefur sent frá sér bókun varðandi málið.

„Við ræddum um þessa fyrirhuguðu gjaldtöku hjá landeigendum Reykjahlíðar og okkur finnst þetta orðið nokkuð handahófskennt yfir landið ef það á að rukka bara svona hér og þar,“ segir Dagbjört Bjarnadóttir, oddviti Skútustaðahrepps.

„Af því að það er verið að vinna í þessum málum á landsvísu þá förum við fram á það að þeir fresti gjaldtökunni og sjái síðan hvað kemur út úr þessum málum.“

Dagbjört segist vita að álagið frá ferðamönnum í Reykjahlíð sé mikið.

„Úrbóta er þörf og við erum alls ekki að draga það í efa. Hinsvegar finnst okkur rétt, úr því að svona langt er komið í vinnunni í ráðuneytinu, að bíða og sjá hvort náttúrupassinn sé eitthvað sem menn geti sætt sig við.“

Eftirfarandi bókun var samþykkti á fundi sveitarstjórnar Skútustaðahrepps 4. apríl. s.l.

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps tekur undir ályktanir Mývatnsstofu frá 31. mars og Markaðsstofu Norðurlands frá 2. apríl. þar sem líst er yfir áhyggjum af fyrirhugaðri, ótímabærri gjaldtöku á ferðamannastöðum í Skútustaðhreppi.

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps harmar að Landeigendur Reykjahlíðar hyggist rukka aðgangseyri af gestum sveitarinnar án þess að aukin uppbygging hafi átt sér stað eða þjónusta veitt.

Það að einstök náttúrusvæði verði lokuð almenningi á háannatíma án greiðslu, eftir áratuga athugasemdalausa notkun, er ekki ásættanlegt fyrirkomulag og mun skaða ímynd sveitarfélagsins til framtíðar.

Sjálfsagt er að Landeigendur Reykjahlíðar setji upp ferðaþjónustu og taki þóknun fyrir veitta þjónustu, þegar lagt hefur verið í uppbyggingu á svæðinu og þjónustan veitt.

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps hvetur Landeigendur Reykjahlíðar til að fresta fyrirhugaðri gjaldtöku við Dettifoss, Hveri og Leirhnjúk þar sem verið er að vinna að lausn þessara mála á landsvísu.

Guðrún María Valgeirsdóttir, sveitarstjóri Skútustaðahrepps, vék af fundi undir þessum lið en hún er einn af landeigendum í Reykjahlíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×