Innlent

Sagði skuldatillögur mjög illa útfærðar

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/GVA
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði skuldatillögur ríkisstjórnarinnar vera mjög illa útfærðar og ótrúlega ósanngjarnar gagnvart mörgum hópum. Þetta sagði hann á Alþingi í dag.

„Í morgun upplýsir Árni Páll Árnason að komið hafi fram enn einn ágallinn á fundi viðskipta og efnahagsnefndar, þar sem fulltrúar fjármálaráðuneytisins staðfestu að draga eigi fyrri aðgerðir fyrir skuldara frá leiðréttingum hjá sumum en ekki hjá öðrum.“

„Jafn ótrúlegt og það hljómar þá gera tillögurnar ráð fyrir því að þeir sem hafa notið skuldaleiðréttinga eða stuðnings með löggjöf frá Alþingi fái ekki skuldaleiðréttingu að þessu sinni, heldur verði öll sú aðstoð dregin frá þeim,“ sagði Helgi.

Hins vegar yrði ekki dregið af þeim sem fengu sambærilegar leiðréttingar í frjálsum samningum í bönkum eða sambærilegum aðgerðum fengið skuldalækkanir eða endurgreiðslu á vaxtakostnaði.

„Því þeir sem voru í góðum tengslum eða viðskiptum við bankana, eða einhverra innan bankana og þurftu ekki að fara lögformlegar leiðir, fá núna sérstaka tékka frá ríkisstjórninni ofan á hina frjálsu samningana.“

Sigrún Magnúsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að henni þætti það mjög slæmt þegar menn sem kenna sig við félagshyggjuflokka á góðum stundum geri lítið úr því þegar verið er að rétta 80 prósent heimila á Íslandi hjálparhönd.

„Geta menn komið í pontu og gert grín að því. Ég kann ekki að meta þetta, segi það alveg hreint út.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×