Innlent

Lögreglustjórinn vill auka eftirlit með lögreglunni

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Stefán Eiríksson lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu vill efla eftirlit með starfsemi lögreglu. Hann telur það til þess fallið að auka traust og skilning á störfum lögreglunnar. 

Ytra eftirlit er margþætt. Í fyrsta lagi er það innanríkisráðherra sem er æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu, en ýmsar ákvarðanir lögreglustjóra sem ekki tengjast rannsókn og saksókn mála eru kæranlegar til hans.

Í öðru lagi er það eftirlit ríkissaksóknara sem er æðsti handhafi ákæruvalds, ríkissaksóknari getur gefið lögreglu fyrirmæli um einstök mál og mælt fyrir um rannsókn og saksókn. Þá tekur hann við kærum vegna refsiverðrar háttsemi lögreglumanna.

Í þriðja lagi má nefna eftirlit ríkisendurskoðunar með fjárhag, Persónuverndar með meðferð persónuupplýsinga og eftirlit umboðsmanns Alþingis.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, er fastur pistlahöfundur hjá Kjarnanum. Í nýjasta pistli sínum fjallar hann um eftirlit með störfum lögreglunnar. Í grein sinni segir Stefán: „Að mínu mati væri fengur að því fyrir lögreglu að eftirlit með starfsemi hennar væri eflt og þar á meðal með þeim hætti að þjóðkjörnir aðilar bæru ábyrgð á því. Í mínum huga er það óháð hugmyndum um auknar rannsóknarheimildir og til þess fallið að auka traust og skilning á störfum lögreglu. Ég tel það einnig vert frekari skoðunar að setja á laggirnar sjálfstæða einingu utan lögreglu sem hefði það hlutverk að rannsaka kærur vegna refsiverðrar háttsemi starfsmanna lögreglu, eftir atvikum í tengslum við ríkissaksóknara eða alfarið óháð og ótengt því embætti.“

Stefán rökstyður í grein sinni að það sé heppilegt að hafa sjálfstæða einingu því óheppilegt sé að ríkissaksóknari, sem sé í nánu samstarfi við lögreglu vegna rannsóknar sakamála, sinni þessu. 

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hafði ekki tök á að veita viðtal í dag vegna málsins. Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, sagði að málið hefði ekki verið skoðað sérstaklega í ráðuneytinu í sinni tíð en sagði hugmyndir Stefáns Eiríkssonar lögreglustjóra allrar athygli verðar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×