Innlent

Ólafur talar um hugkveikjur, viðbragðsflýti og núvitund

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/daníel
Ráðstefnan TEDxReykjavík verður haldin í fjórða sinn þann 17. maí næstkomandi í Hörpunni en markmið ráðstefnunnar er að ljá góðum hugmyndum vængi.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá TEDxReykjavík  að boðið verði upp á leiftrandi fyrirlestra þar sem kynntar eru nýjar hugmyndir og spennandi uppgötvanir.

Mælendur á TEDxReykjavík eru hugsuðir, frumkvöðlar, listamenn og áhrifafólk sem Ísland hefur upp á að bjóða.

Meðal mælenda á TEDxReykjavík 2014 verða Ólafur Stefánsson, handboltaþjálfari, sem mun tala um hugkveikjur, viðbragðsflýti og núvitund.

Gulla Jónsdóttir, arkitekt, kemur einnig fram og mun ræða um áhrif listar í arkitektúr og hvernig byggingar og umhverfi geta haft áhrif á tilfinningar og upplifun fólks.

Þá mun Þórir Ingvarsson, lögreglumaður, koma fram og tala um samfélagsmiðlanotkun lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu og hvaða áhrif hún getur haft á samskipti lögreglu við almenning sem og skynjun fólks á lögreglunni.

Guðrún Ingibjörg Þorgeirsdóttir, læknanemi við Háskóla Íslands, sem tvisvar hlaut gullpennann í ritgerðarsamkeppni MR í júní 2013, kemur fram og mun að tala um sköpun og hvers vegna listamenn eða rithöfundar gera það sem þeir gera.

Nánari upplýsingar um viðburðinn má nálgast á Facebook-síðu ráðstefnunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×