Innlent

Réttur til húsaleigubóta verður rýmkaður

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/gva
Fleiri munu öðlast rétt til húsaleigubóta en nú er, samþykki Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um húsaleigubætur sem Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, kynnti ríkisstjórn fyrir helgi.

Þetta kemur fram í frétt á vef Velferðarráðuneytisins.

Breytingarnar munu einkum nýtast námsmönnum og þeim sem halda tímabundnum afnotum af íbúðarhúsnæði í kjölfar nauðungarsölu sem þar með geta öðlast rétt til húsaleigubóta.

Fram kemur í fréttinni að verði frumvarpið að lögum geta þeir átt rétt til húsaleigubóta sem misst hafa húsnæði sitt á nauðungarsölu, en búa þar áfram gegn greiðslu samkvæmt heimild í lögum um nauðungarsölu.

Samkvæmt gildandi lögum er réttur til húsaleigubóta bundinn við að leigjendur eigi lögheimili í íbúðarhúsnæðinu sem þeir leigja. Þó er undanþáguákvæði frá þessu sem felur í sér að námsmenn geta átt rétt til húsaleigubóta stundi þeir nám og leigi húsnæði í öðru sveitarfélagi en þeir eiga skráð lögheimili.

Samkvæmt frumvarpi Eyglóar verður undanþáguheimildin jafnframt látin ná til leigjenda sem stunda nám innan þess sveitarfélags þar sem þeir áttu lögheimili er námið hófst þurfi þeir að búa annars staðar í sveitarfélaginu þar sem þeir geta ekki daglega sótt skóla frá lögheimili sínu vegna landfræðilegra aðstæðna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×