Innlent

Dagskrá Alþingis breytt fyrirvaralaust: „Viðkvæmni virðist vera fyrir dagsetningunni 1. apríl“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Helgi er ekki sáttur við hina fyrirvaralausu breytingu.
Helgi er ekki sáttur við hina fyrirvaralausu breytingu. vísir/gva
Forseti Alþingis boðaði þingflokksformenn á sinn fund í dag þar sem þeim var greint frá því að fjármálaráðherra vilji ekki mæla fyrir skuldafrumvörpum ríkisstjórnarinnar á morgun eins og ákveðið var fyrir viku síðan.

Þetta kom fram í ræðuHelga Hjörvars, þingmanns Samfylkingunnar, á Alþingi síðdegis.

„Maður hlýtur að spyrja sig, er það bara viðkvæmni hæstvirts forsætisráðherra fyrir því að 1. apríl er á morgun, sem starf Alþingis er sett í uppnám?,“ sagði Helgi í ræðunni, en í samtali við Vísi segir hann óvenjulegt að dagskrá þingsins sé breytt svona fyrirvaralaust.

„Þetta er óheppilegt fyrir málið. Við höfum lagt áherslu á að ljúka fyrstu umræðu á þriðjudag og miðvikudag og koma málinu til nefndar, því það eru ekki þingfundir á fimmtudag og föstudag,“ segir Helgi.

„Með því að vilja ekki ræða málið á morgun er nokkuð ljóst að málið kemst ekki til nefndar fyrr en í næstu viku. Það er erfitt að sjá fyrir sér að fjármálaráðherra hafi neitt brýnna verkefni á morgun en að mæla fyrir frumvörpum sem snúast um jafn gríðarlega háar fjárhæðir og þessi frumvörp, sem auk þess eru aðalmál ríkisstjórnarinnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×