Innlent

"Mennta - og fjármálaráðherra verða að sýna stuðning í verki“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Baráttuhugur og samstaða einkenndu fjölsóttan baráttufund framhaldsskólakennara sem fram fór í Verkfallsmiðstöðinni í Framheimilinu fyrr í dag. Þar var kallað eftir því að menntamála- og fjármálaráðherra sýndu vilja í verki til að leysa kjaradeiluna, svo skólastarf skaðist ekki enn frekar.  

Um 500 manns sóttu fundinn og auk þess fylgdust um þrjú hundruð manns með  í verkfallsmiðstöðvum víða um land, en fundurinn var sendur út á netinu. Fundarmenn sungu Maístjörnuna og reistu hnefa sína til lofts undir lok fundarins.

„Það er gríðarleg samstaða og baráttuhugur í fólki. Skilaboðin eru mjög skýr. Bæði menntamála - og fjármálaráðherra verða að sýna stuðning í verki og gera sitt til að liðka fyrir kjarasamningunum svo það sé hægt að ganga frá þessu strax," segir Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður samingarnefndar framhaldsskólakennara.

Í dag hófst þriðja vika verkfallsins en framhaldskólakennurum hefur nú verð boðin launahækkun upp á meira en tíu prósent. Samninganefndin er tilbúin að skoða það tilboð alvarlega, en fyrst þarf að ganga frá öðrum hlutum samningsins.

„Við þurfum að fá betri umbúnað um reksturinn. Það dugar ekki að semja um laun og hækkun launa ef rekstur framhaldsskólanna á áfram að vera jafn slakur og hann er búinn að vera núna í fjölmörg ár,“ segir Ólafur H. Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×