Innlent

Veður að skána á vestanverðu landinu

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Frá Flateyri. Vegir á Vestfjörðum eru smám saman að opnast.
Frá Flateyri. Vegir á Vestfjörðum eru smám saman að opnast. VÍSIR/RÓBERT
Veður hefur skánað mikið á vestanverðu landinu en áfram verður norðan hvassviðri, snjókoma og skafrenningur um landið norðaustanvert og á Austurlandi fram eftir degi.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að lokað sé um um Grenivíkurveg vegna snjóflóðs og Ólafsfjarðarmúla vegna snjóflóðahættu.

Víða er hálka eða hálkublettir en ófært er á Fróðárheiði og verið er að moka Svínadal.

Á Vestfjörðum eru vegir smám saman að opnast. Búið er að opna milli Patreksfjarðar og Bíldudals. Eins er búið að opna veginn frá Ísafirði inn í Súðavík. Annars er verið að moka á flestum leiðum.

Þokkaleg færð er á Norðurlandi vestra nema hvað enn er ófært bæði á Þverárfjalli og Siglufjarðarvegi. Ekki er reiknað með að Öxnadalsheiði opnist fyrr en í fyrsta lagi um hádegi.

Þá er verið að moka frá Eyjafirði austur á Mývatn og til Húsavíkur en einnig með ströndinni þaðan til Vopnafjarðar. Á Austurlandi er síðan ófært við Heiðarenda og eins á Fjarðarheiði og Vatnsskarði eystra.  Oddsskarð er þungfært en þar er verið að moka. Greiðfært er frá Djúpavogi suður um.

Uppfært klukkan 13:50: Samkvæmt íbúa í Ljósavatnsskarði hefur vegurinn ekki opnað enn og einhver bið verður á að hann opni. Líklega um tveir klukkutímar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×