Innlent

„Ísland þarf að stíga í átt til meira frjálsræðis og leggja niður Ríkisútvarpið“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
„Það þarf að straumlínulaga Ríkisútvarpið,“ segir Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, í þættinum Mín skoðun sem sýndur var á Stöð 2 og Vísi í dag. Þar voru málefni Ríkisútvarpsins rædd.

Össur segir Magnús Geir Þórðarson, nýráðinn útvarpsstjóra, verða að ganga mjög hægt um dyr varðandi það að nota fjárhagsstöðuna til að ráðast í róttækar uppstokkanir. „Hann á að þekkja þessa fjárhagsstöðu. Hann var í útvarpsráði, hann var eftirlitsaðili.“

Össur segir það hafa komið til greina á síðasta kjörtímabili að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði. Hann segist þó vera á þeirri skoðun að það eigi að vera opinbert útvarp.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, segir þjóðina eiga að fá að ákveða um tilvist Ríkisútvarpsins. Hann segir að fyrirkomulagið í dag sé engan veginn að tryggja eitt af meginhlutverkum ríkisfjölmiðilsins, sem sé að hafa eftirlit með hinu opinbera.

„Ríkisfjölmiðillinn eins og hann er rekinn í dag, þá er eignarhaldið ríkisins. Skipun í stjórn sem ákveður síðan alla yfirstjórnina og starfsmenn er alfarið frá meirihluta þingsins, sem þessi fjölmiðill á að hafa eftirlit með, og meirihluti peninganna kemur líka frá hinu opinbera.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir lögfræðinemi segir að það sé sérstakt að sjá að ríkisútvarp geti ekki rekið sig á fjórum milljörðum með almennilegum hætti.

„Þetta gerist svo oft með opinberar stofnanir að þær koma illa út úr fjárhagsáætlunum af því að það er enginn agi. Það er svo auðvelt að sækja meira fé til skattgreiðenda af því að þetta er skylda okkar. Það er verið að taka peninga með valdi og Ísland þarf bara að fara að stíga í átt til meira frjálsræðis og leggja niður Ríkisútvarpið.“

Umræðuna má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×