Innlent

„Góðmennskan og samkenndin er alveg ótrúleg"

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Á fimmtudaginn brotnaði brettið. Ekki hefur staðið á viðbrögðunum síðan þá.
Á fimmtudaginn brotnaði brettið. Ekki hefur staðið á viðbrögðunum síðan þá. Vísir/aðsent
„Góðmennskan og samkenndin er alveg ótrúleg – alveg með ólíkindum,“ segir Berglind Þórðardóttir, móðir níu ára drengs sem lenti í slysi á fimmtudag. Drengurinn var á hjólabretti sínu í íbúðarhverfi í Hafnarfirði og lenti í lítillegum árekstri við bíl með þeim afleiðingum að brettið brotnaði.

Kona sem ók bílnum brást illa við og húðskammaði son Berglindar áður en hún ók í burtu. Vitni voru að slysinu, sem hlúðu öll að syni Berglindar – og náðu því ekki númeri bílsins sem konan ók.

Drengurinn slasaðist ekki. „Hann slasaðist ekki á líkama, en sálin var lemstruð. Hann var í áfalli eftir þetta. Sérstaklega líka vegna þess að konan skammaði hann rosalega,“ útskýrir Berglind.

Berglind vakti athygli á málinu á Facebook um kvöldmatarleytið í gær. Viðbrögðin hafa verið ótrúleg. Rúmlega átján hundruð manns hafa deilt færslu Berglindar og mikill fjöldi sett sig í samband við hana.

„Tvær verslanir hafa boðist til að gefa syni mínum nýtt hjólabretti og mikill fjöldi brettastráka hefur boðist til að gefa honum brettaplötur sem þeir eiga aukalega, til þess að reyna að bæta honum þetta tjón,“ segir Berglind og lýsir yfir mikilli ánægju vegna viðbragða brettastrákanna: „Þeir sögðu eiginlega allir: „Við brettastrákarnir stöndum saman“. Þeir voru allir svo ánægðir að sonur minn hafði safnað sér fyrir brettinu sjálfur.“

Konan ók í burtu

Í Facebook-færslu Berglindar lýsir hún atvikum málsins og hvetur konuna sem sat við stýri bílsins til að gefa sig fram. Berglind var ósátt með viðbrögð konunnar:

„Ef þú ert í kringum sextugt, grönn og með hvítgrátt stutt hár og ekur um á dökkbláum skutbíl eða smájeppa, og jóst þér yfir drenginn minn, þá eru þessi skilaboð til þín. Hefðir þú stungið af ef fóturinn á honum hefði lent undir bílnum?

Málið var tilkynnt lögreglu svo þú getur hvort heldur sem er gefið þig fram við yfirvöld til að bæta drengnum brettið eða beint við okkur. Bretti er ekki bara bretti í augum 9 ára barns, heldur var það fjarlægur draumur, og því tók árið að safna þessum 17 þúsund krónum sem brettið kostaði.“

Sonur Berglindar var búinn að eiga hjólabrettið sem brotnaði í tæpar tvær vikur. Hann safnaði sér fyrir því sjálfur.

„Hann er mikið fyrir bretti, honum finnst líka ótrúlega gaman á snjóbretti. Hann hefur erft bretti eftir aðra, er til dæmis á snjóbretti sem bróðir hans átti. Það er alltof stórt fyrir hann, en hann lætur sig hafa það,“ útskýrir Berglind og heldur áfram:

„Hann ákvað að safna sér fyrir þessu bretti og keypti fyrir um tveimur vikum. Síðan þá hefur verið varla verið hægt að fara með það út, vegna þess að snjór er yfir öllu. Hann hefur verið á því inni í stofu síðan hann fékk það.“

Hér að neðan má sjá skrif Berglindar á Facebook.

Hér er sonur Berglindar með brotna brettið.
Drengurinn í áfalli

Berglind segir það hafa verið ótrúlega erfitt að heyra í syni sínum eftir slysið. 

„Ég hef aldrei heyrt drenginn tala svona. Hann fékk bara taugaáfall. Hann náði ekki andanum. Hann hringdi í mig eftir að þetta gerðist og ég heyrði bara skjálftann og hræðsluna í rödd hans. Hann var fyrst og fremst ótrúlega hræddur.“ 

Berglind segir að syni hennar hafi sárnað viðbrögð konunnar sem jós yfir hann skömmunum. „Hann var niðurbrotinn eftir þetta allt saman. Hann gat ekki haldið á brettinu, eins og hann gerir á myndinni af honum, fyrr en tveimur dögum seinna,“ útskýrir hún.

Keyrði of hratt

Sonur Berglindar var staddur heima hjá vinkonu sinni og voru þau að leik í íbúðarhverfi.

„Konan hefur verið að keyra alltof hratt. Það er enginn gangstétt sem skilur að lóðina og götuna. Hann rennur út á götuna með þessum afleiðingum,“ segir Berglind.

Hún segir að hægt sé að uppfæra gamlan málshátt – sem ætti að fá fólk til þess að keyra hægar í íbúðarhverfum. 

„Áður fyrr var talað um að á eftir bolta kæmi barn. Núna má líka segja að á eftir bretti kemur barn. Ég held að við þurfum öll að taka okkur á og keyra hægar inn í íbúðarhverfum. Þetta hefði getað endað illa,“ segir Berglind.

Hér er Berglind með syni sínum.
Stórkostleg viðbrögð

Berglind er ótrúlega ánægð með viðbrögðin við skrifum hennar á Facebook. „Ég setti færsluna inn um kvöldamatarleytið í gær og nú eru rúmlega 1800 manns búnir að deila henni. Mohawks og Brim hafa sett sig í samband við mig og boðið honum nýtt bretti. Mér þykir líka svo vænt um skilaboðin frá brettastrákum landsins. Það eru vel á annan tug sem hafa boðið honum að eiga hjólabrettaplötur sem þeir eiga aukalega,“ segir Berglind.

Vill afsökunarbeiðni

Berglind er viss um að konan sem ók bílnum sé góð kona. „Ég held að henni hafi einfaldlega verið brugðið. Ég trúi því að þetta sé góð kona, góð móðir og góð amma. Hún hefur bara verið í sjokki og þess vegna skammað drenginn minn svona.“

Hún vonast til þess að konan sjái nú að sér og biðjist afsökunar. „Þegar sonur minn var búinn að jafna sig á þessu áfalli, hafði hann orð á því að konan hafi ekki einu sinni beðist afsökunar. Við kennum börnunum okkar að biðjast afsökunar þegar þau gera mistök og ég vona að konan geri það líka,“ segir Berglind.

Berglind er með einföld skilaboð til allra: „Nú er snjó farið að leysa. Þá er ótrúlega mikilvægt að vera vakandi í umferðinni og keyra hægar í íbúðarhverfum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×