Innlent

"Hann er í grunninn frábær sölumaður“

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty/Stefán
„Hann situr sinn dóm af sér og á þessum tuttugu árum er hann búinn að vera að gera það sem hann gerir best. Að fullkomna þetta sölukerfi sitt og gera það löglega og siðferðislega rétt," sagði Jón Gunnar Geirdal, sem var gestur í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Jón Gunnar er að fá Jordan Belfort, sem er betur þekktur sem Úlfurinn á Wall street til að halda fyrirlestur á Íslandi í maí.

Jordan Belfort sat í fangelsi í 22 mánuði fyrir að hafa svikið um 200 milljónir dala, tæplega 22,5 milljarðar króna miðað við gengið í dag, af fjárfestum í gegnum fyrirtæki sitt Stratton Oakmont. Honum var einnig gert að greiða helming tekna sinna til fjárfestanna sem hann sveik, að 110 milljónum dala.

„Það þarf engum blöðum að fletta um að maðurinn var glæpamaður og alræmdur. Hann segir það manna best sjálfur. Hann sveik fullt af fólki. Hann stofnaði fyrirtæki á Wall street og fékk grimma sölumenn með sér sem sannfærðu fólk um að fjárfesta í lélegum fyrirtækjum og græddi á þessu fleiri og fleiri milljarða,“ sagði Jón Gunnar.

„Svo hrundi þessi spilaborg FBI var með hann undir smásjá. Hann náðist, fór í fangelsi og situr þetta af sér. Hann var sektaður um einhverjar 110 milljónir dollara og er búinn að borga einhverjar tíu eða tólf af því held ég.“

„Burtséð frá öllu, þá segir árangurinn sína sögu. Hann kemur allslaus, á ekki neitt, en hann átti allt í heiminum,  úr fangelsi og byggir sig upp aftur. Sitt vörumerki, sína ímynd og það sem hann gerir best, sem er að sannfæra fólk og selja. En bara gera það löglega og rétt.“

„Hann er ekki ráðgjafi fyrir Seðlabanka Bandaríkjanna, Deutshe bank, Royal bank of Scotlan og General electric, út af því að hann var svo fyndinn í partíum árið 1994.“

„Hann er í grunninn frábær sölumaður. Hann gæti kennt Heimi að selja sand í eyðimörkinni og gera það vel. Ef hann er ráðgjafi fyrir öll þessi stóru fyrirtæki sem ég nefndi áðan, þá getur hann verið stórum og smáum fyrirtækjum og einstaklingum hérna heima innan handar og kennt þeim eitthvað,“ sagði Jón Gunnar.


Tengdar fréttir

Vafasamur Wall Street-úlfur

Kvikmyndin The Wolf of Wall Street segir sögu verðbréfasalans fyrrverandi, Jordans Belfort, sem Leonardo DiCaprio túlkar á eftirminnilegan hátt. Á tíunda áratugnum tókst Belfort að svíkja ótrúlegar fjárhæðir í gegnum verðbréfafyrirtækið Stratton Oakmont á Wall Street.

Miðar á úlfinn kosta 50 þúsund krónur

Jordan Belfort, einnig þekktur sem úlfurinn á Wall Street, mun halda sölufyrirlestur á Íslandi í maí. Miðarnir munu kosta á milli 39.900 og 49.900 krónur.

Peningar, hórur og eiturlyf

Sannfæringarmáttur eins manns getur orðið til þess að þú sturtir öllum eðlilegum siðferðisgildum niður í klósettið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×