Innlent

Fá að vera áfram á Íslandi

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Innanríkisráðuneyið snéri í dag dómi Útlendingastofnunar í máli Kólumbískrar konu á sjötugsaldri, dóttur hennar og sjö ára barnabarni sem synjað var um hæli hér á landi. Þær fá að vera áfram hér á landi af mannúðarástæðum.

Það var mikil gleði hjá Kólumbísku fjölskyldunni þegar ljóst var að hún fengi að vera áfram saman á Íslandi. Susana Ortiz de Suarez kom til landsins í lok árs 2011 ásamt barnabarni sínu. Dóttir hennar, Johanna, hafði komið skömmu áður. Þær komu hingað til lands vegna þess að dóttir Susönu, Mary Luz, og synir hennar tveir, voru í hópi flóttamanna sem fengu hæli hér á landi árið 2007 fyrir tilstilli íslenskra stjórnvalda.

Útlendingastofnun hafði áður kveðið sinn úrskurð um að senda þær úr landi en því var hnekkt í dag. Lögmaður kólumbísku kvennanna segir dóminn geta haft mikil áhrif.

„Þetta er stefnumarkandi úrskurður í málsmeðferðarhraða,“ segir Hrefna Dögg Gunnarsdóttir, lögmaður. „Vonandi verður þessi dómur til þess að önnur mál muni líka njóta hraðari málsmeðferðar án þess að það komi niður á gæðum niðurstöðunnar.“

Mary Luz kom hingað til lands árið 2007 og er gríðarlega sátt með að fjölskylda hennar fái að vera öll saman á Íslandi. „Ég vil þakka öllum Íslendingum,“ segir Mary Luz og þakkar einnig innanríkisráðherra sérstaklega.

Nánar í myndbandinu hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×