Innlent

Segir Orkustofnun vekja upp „brjálæðislegar“ virkjanahugmyndir

Svavar Hávarðsson skrifar
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, lýsir furðu sinni á vinnubrögðum Orkustofnunar við að leggja fram nýja virkjanakosti til meðferðar 3. áfanga rammaáætlunar. Hann telur að vinna verkefnisstjórnarinnar, staðfesting á Alþingis á þeirri vinnu og lögum um rammáætlun sé allt í senn „gefið langt nef“ og sett í fullkomna óvissu. Hann kallar eftir viðbrögðum Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfisráðherra.

„Ef hann gerir það ekki verður ekki annað séð en að umhverfis- og auðlindaráðherra ætli að láta bjóða sér þessa niðurstöðu úr iðnaðarráðuneytishluta atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og frá Orkustofnun," sagði Steingrímur í ræðu á Alþingi fyrr í dag.

Steingrímur segir frumlegt af Orkustofnun að leita aftur í 20 ára gömul gögn Iðnaðarráðuneytisins, svokallaða Hvítbók, til að tiltaka virkjanakosti til skoðunar.

„Vita menn hvað er í þessari bók? Það eru fjórar mismunandi útgáfur t.d. af virkjun Hvítár, með eða án Gullfoss. Þannig er þessi bók. Það eru brjálæðislegar hugmyndir um að tæta niður fjölmargar fallegustu laxveiðiár landsins, t.d. að veita vatni úr fjórum laxveiðiám í Þistilfirði og á Langanesströnd yfir í eina þeirra, þurrka upp sumar þeirra, taka vatn úr Selá og Vesturdalsá og skutla því vestur í Hofsá. Það eru tillögurnar í þeirri bók sem Orkustofnun notar sem röksemdir fyrir því að tína út úr henni ýmsar brjálæðislegar 20 ára gamlar hugmyndir um virkjanir af því tagi. Ég tel þetta þvílíkt hneyksli að mér finnst að hæstvirtur umhverfis- og auðlindaráðherra eigi að lágmarki að standa Alþingi skil á þeirri stöðu sem komin er upp,“ sagði Steingrímur í ræðu sinni.

Kristinn Einarsson, yfirverkefnisstjóri auðlindanýtingar hjá Orkustofnun.
Orkustofnun telur að tillögurnar að nýjum virkjanakostum til meðferðar við 3. áfanga rammaáætlunar séu ekki síst til að kanna hugarfar landsmanna gagnvart orkunýtingu, eins og Fréttablaðið greindi frá á laugardag.  

Kristinn Einarsson, yfirverkefnisstjóri auðlindanýtingar hjá Orkustofnun, útskýrði að 43 tillögur um virkjanakosti af 91 hafi komið frá orkufyrirtækjum. Af þeim sendi Orkustofnun 42 áfram til umfjöllunar verkefnisstjórnar. Aðrir af 91 virkjanakosti koma frá Orkustofnun, og þar af 27 nýir.

„Það er æskilegt fyrir verkefnastjórnina að hafa sem flesta kosti með; að þeir spanni allt litrófið. Bæði góðir og slæmir hvort sem það varðar hagkvæmni eða umhverfislega þætti,“ segir Kristinn og bætir við að Orkustofnun hafi talið að auka þyrfti fjölbreytni virkjunarkosta í vatnsafli. Bæði hvað varðar stærð, að minni kostir kæmu inn, og svo vegna staðsetningarinnar.

„Dreifikerfi raforku er of veikt til að senda orku hvert sem er,“ segir Kristinn. Hann játar því að virkjanir í Hofsá og Hafralónsá á Norðausturlandi séu nærtækt dæmi vegna stöðu raforkuflutninga á því svæði.

Kristinn segir að virkjanakostirnir séu þeir vænlegustu sem birtir voru í Hvítbók iðnaðarráðuneytisins frá árinu 1994, þar sem gefið var yfirlit um orkukosti á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×