Innlent

„Ekkert því til fyrirstöðu að fara ræða málið í þinginu“

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/daníel
„Þetta mun snerta um 100 þúsund heimili,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í þættinum Reykjavík síðdegis í dag.

Á ríkisstjórnarfundi í morgun voru frumvörp ríkisstjórnarinnar til leiðréttingar á höfuðstól húsnæðislána og séreignasparnað kynnt og samþykkt.

Þau verða kynnt þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna á morgun og síðdegis verða frumvörpin svo kynnt blaðamönnum.

„Þetta er mjög stór hluti af öllum heimilum í landinu  og í raun megnið af íslenskum heimilum þegar við skoðum báða þætti þessara aðgerða.“

Sigmundur segist vera mjög spenntur fyrir því að þessar tillögur séu loks að verða að veruleika.

„Frumvörpin eru klár og búið að afgreiða þau á ríkisstjórnarfundi og því ekkert því til fyrirstöðu að fara ræða málið í þinginu.“

Sigmundur telur að þar eigið málið eftir að ganga hratt fyrir sig.

„Menn eru að miða við að um miðjan maí geti fólk farið að sækja um. Það verður mjög einfalt ferli og mun ríkisskattstjóri koma að því með okkur. Þar hefur verið hannað heilmikið kerfi þar sem fólk getur slegið inn lágmarksupplýsingar og þá fara hjólin að snúast.“

Forsætisráðherrann viðurkenndi að málið hefði kannski verið örlítið flóknara en hann gerði ráð fyrir.

„Þó maður hafði gert sér grein fyrir því að auðvitað væri þetta flókið þá koma upp fjölmörg álitamál þegar vinnan fer af stað. Það má kannski segja að þetta sé eins og þegar menn byrja að gera við gamalt hús þá kemur alltaf meira og meira í ljós.“

Sigmundur segir að það hafi þurft að leysa úr ýmsum flækjum þegar á hólminn var komið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×