Innlent

Samfylkingin stærsti flokkurinn í Reykjavík

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Dagur B. Eggertsson er oddviti Samfylkingarinnar í borginni.
Dagur B. Eggertsson er oddviti Samfylkingarinnar í borginni. Vísir/GVA
Samfylkingin er nú stærsti stjórnmálaflokkur Reykjavíkur með 28% fylgi. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir Morgunblaðið.

Samfylkingin fengi fimm borgarfulltrúa ef gengið væri til kosninga nú. Björt framtíð er næst stærsti flokkurinn í borginni, með 24,8% fylgi og fengi flokkurinn fjóra borgarfulltrúa.

Sjálftæðisflokkurinn er þar skammt á undan með 24,4% fylgi og fengi einnig fjóra borgarfulltúa.

Í síðustu borgarstjórnarkosningum fékk Sjálfstæðisflokkurinn fimm borgarfulltrúa og 33,6% fylgi. Fylgi flokksins hefur einnig minnkað frá síðustu könnun Félagsvísindastofnunar HÍ, en þá mældist flokkurinn með 28,4%.

Björt framtíð tapar einnig fylgi, ef miðað er við gengi Besta flokksins í síðustu kosningum. Besti flokkurinn á nú sex fulltrúa í borgarstjórn og því myndi þeim fækka um tvo.

Píratar og Vinstri grænir fengju sinn borgarfulltrúann hvor ef gengið væri til kosninga nú. Píratar mælast með 9,1% fylgi og Vinstri grænir með 8,6%.

Dögun mælist með næst minnsta fylgi flokkanna í Reykjavík og fengju 2,8% atkvæða ef niðurstöður könnunarinnar myndu endurspegla kosningaúrslitin í vor. Framsókn mælist með minnsta fylgið í könnuninni, flokkurinn er með 2% fylgi.

Könnunin var gerð dagana 17. til 23. mars og var bæði netkönnun og símakönnun. Svarhlutfall var 60%. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×