Innlent

Á þriðju milljón krafist fyrir ítrekaðar líkamsárásir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vísir/Valli
Aðalmeðferð í máli fyrrverandi unnustu Stefáns Þórs Guðgeirssonar á hendur Stefáni Þór fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Ákæran er í sex liðum sem snúa allir að ofbeldi sem unnustan á að hafa orðið fyrir af hendi Stefáns Þórs.

Í ákærunni kemur fram að líkamsárásirnar, sex talsins, hafi átt sér stað í mars og apríl árið 2012. Voru þær ýmist á heimili Stefáns Þórs, í bíl hans eða öðrum húsakynnum. Endurtekið á Stefán Þór að hafa haldið þáverandi unnustu niðri, slegið hana og bitið, sparkað í hana, slegið í andlit og bak ýmist með höndum sínum eða belti.

Farið er fram á að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakakostnaðar. Fyrrverandi unnusta Stefáns Þórs fer fram á 2,25 milljónir í skaða- og miskabætur að frátöldum vöxtum.

Stefán Þór hefur áður komið við sögu lögreglu fyrir ofbeldi. Hann var í september 2012 dæmdur í fimm ára fangelsi í Hæstarétti fyrir að hafa nauðgað konu sem hann hugðist kaupa vændi af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×