Innlent

Gervi-Hilmir Snær á Facebook

Jakob Bjarnar skrifar
Hilmir Snær. "Nei þetta var ekki ég.“
Hilmir Snær. "Nei þetta var ekki ég.“
Hilmir Snær Guðnason, hinn góðkunni leikari og leikstjóri, hefur sent vinum sínum á Facebook orðsendingu en þar kemur fram að óprúttinn aðili leikur þann leik að þykjast vera Hilmir og á jafnvel í samskiptum við fólk sem Hilmir.

„Kæru vinir á Facebook. Ég frétti að einhver hefði búið til facebooksíðu í mínu nafni og eignast vini og jafnvel talað við þá,“ skrifar Hilmir á Facebookvegg sinn. Og hann heldur áfram: „Vil bara láta vita að þetta er ekki ég heldur einhver óprúttin persóna. Ef einhverjir eiga þessi samtöl í fórum sínum þætti mér vænt um að þeir geymdu þau og létu mig vita svo það sé hægt að hafa upp á brotamanneskjunni. Takk.“

Ekki er vitað hvað viðkomandi gengur til. Ekki tókst að ná tali af Hilmi og Vísi tókst ekki að finna þennan gervi-Hilmi á Facebook þannig að svo virðist sem dregið hafi til tíðinda í þessu dularfulla máli - í þessum fréttum af Facebook þar sem allt getur gerst. Vinir Hilmis Snæs velta þessu fyrir sér og leikarinn Rúnar Freyr Gíslason sendi Hilmi svohljóðandi skilaboð á Facebookvegg hans: „Nú er einhver „Hilmir Snær Guðnason“ sem lítur alveg eins út og þú líka kominn á facebook. Ert það þú að taka Bill Gates á þetta eða einhver sem þykist vera þú?“

Og Kolbrún Halldórsdóttir leikstjóri kannast við málið: „Já, einmitt! Ég fékk líka boð um að gerast vinur tvífara Hilmis Guðnasonar....! Er að hugsa um að láta hann lönd og leið, held mig bara við "the real thing"“. Og Hilmir svarar: „Nei þetta var ekki ég.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×