Innlent

Verðlaun Háskólans í Reykjavík afhent

Samúel Karl Ólason skrifar
Leifur Þór, Hrannar, Daníel Brandur, forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Ari Kristinn Jónsson, rektor HR.
Leifur Þór, Hrannar, Daníel Brandur, forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Ari Kristinn Jónsson, rektor HR. Mynd/Aðsend
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afhenti í gær verlaun Háskólans í Reykjavík fyrir framúrskarandi árangur í rannsóknum, þjónustu og kennslu. Umrædd verðlaun eru veitt á hverju ári og er þeim ætlað að hvetja kennara og starfsfólk háskólans til nýsköpunar, þróunarstarfs, rannsókna og framúrskarandi þjónustu.

Rannsóknarverðlaun HR hlaut dr. Leifur Þór Leifsson, flugvélaverkfræðingur og dósent við tækni- og verkfræðideild. Rannsóknarsvið hans eru þróun hraðvirkra hönnunaraðferða og gerð ómannaðra farartækja.

„Við val á rannsóknarverðlaunum HR er litið til birtinga rannsókna á alþjóðlegum vettvangi, öflun styrkja, framlags til rannsóknarstarfs háskólans, áhrifa á nemendur og unga rannsakendur og þátttöku í uppbyggingu rannsóknarsetra,“ segir í tilkynningu frá HR.

Kennsluverðlaun HR hlaut Daníel Brandur Sigurgeirsson, aðjúnkt við tölvunarfræðideild.

„Hann hefur þróað og skapað ný námskeið, farið nýjar leiðir í kennslunni og náð mjög sterkum tengslum við nemendur.  Hann hefur fengið afbragðsgott kennslumat í gegnum árin og leitt nýtingu upplýsingatækni,“ sagði Ari Kristinn Jónsson, rektor HR.

Handhafi þjónustuverðlauna HR er Hrannar Traustason, umsjónarmaður rafeindaverkstæðis. „Þegar kemur að þjónustuverðlaunum er horft til gæða þjónustu, skjótra viðbragða, góðs viðmóts, frumkvæðis, tengsla við starfsmenn og nemendur, samstarfs við önnur svið HR, þekkingar og færni á fagsviði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×