Innlent

Þjóðin ákveði hvort slíta á ESB viðræðum

Heimir Már Pétursson skrifar
Fjármálaráðherra segir hugsanlegt að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um að draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka. Ef þjóðin felldi þá tillögu væri staðan gagnvart Evrópusambandinu óbreytt frá því sem nú er.

Bjarni Benediktsson sagði í umræðum á Alþingi í gærkvöldi að það væri ekki skynsamlegt að þjóðin greiddi atkvæði um það að halda aðildarviðræðunum áfram. En hann opnaði fyrir annars konar þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.



Til greina komi að setja tillögu utanríkisráðherra um slit aðildarviðræðna í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Er það þá orðin stefna Sjálfstæðisflokksins?



„Það sem ég tók fram í þinginu í gær er það sama og ég hef verið að nefna að undanförnu,  að ég tel að við eigum aðeins að staldra við og hlusta eftir þessari kröfu. Afstaða ríkisstjórnarinnar er hins vegar alveg óbreytt, beggja stjórnarflokka, að það sé rétt á þessum tímapunkti að draga umsóknina til baka,“ segir Bjarni.

Nú sé tillaga utanríkisráðherra sem og tillögur Vinstri grænna og Pírata í málinu komnar til utanríkismálanefndar og ágæt samstaða um að fara yfir allar hugmyndir í þessum efnum.

„Ég hef viljað gera skýran greinarmun á tvennu. Það er hvort þessi tillaga færi mögulega á endanum eftir afgreiðslu þingsins til þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu og síðan atkvæðagreiðslu um eitthvað allt annað. Það finnst mér ekki koma til greina, t.d. að menn fari að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um að fara í aðildarviðræður,“ segir formaður Sjálfstæðisflokksins.

Þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna vildu meina í umræðum á Alþingi í gærkvöldi og nótt að þessi afstaða Bjarna markaði eftirgjöf af hans hálfu, enda segir Bjarni að það hafi komið honum á óvart hversu víðtæk krafa væri um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna.

En ef tillaga utanríkisráðherra færi í þjóðaratkvæðagreiðslu og yrði felld, hver er staðan þá?

„Þá værum við í sjálfu sér með óbreytta stöðu. Viðræðuferlið var stöðvað af fyrri ríkisstjórn og það væri þá allt óbreytt. Þannig myndi ég líta á það,“ segir Bjarni Benediktsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×