Aðalfundur Landsvirkjunar verður haldinn innan fárra daga. Ný stjórn verður kosin á fundinum og tilnefningum til stjórnarsetu stjórnar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Fyrir liggur að Bryndís Hlöðversdóttir núverandi stjórnarformaður mun hætta í stjórn, en þrálátur orðrómur hefur verið uppi um að Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, muni verða tilnefndur af Bjarna sem stjórnarformaður. Slíkur orðrómur hefur vissulega borist inn á ritstjórn Vísis og einn heimildarmanna blaðsins taldi öruggt að þetta væri frágengið mál.
Vísir náði tali af Bjarna nú fyrir stundu og hann segir þetta rangt – en línur liggja nú þegar fyrir.
Nú er það þannig að ég tel mig hafa áreiðanlegar heimildir fyrir því að þú ætlir að skipa Davíð Oddsson sem stjórnarformann Landsvirkjunar? Geturðu staðfest það?
„Nei, ég get nú ekki staðfest það.“
Hvenær muntu tilkynna skipan stjórnar?
„Sko, ég geri ráð fyrir því að aðalfundurinn verði bara núna rétt um mánaðamótin.“
Þú ert væntanlega búinn að leggja línurnar?
„Jájá. Ég hef fengið tilnefningar frá öðrum flokkum, það styttist í aðalfundinn og við munum senda frá okkur allar tilnefningar í stjórnina innan fárra daga. Þetta er þannig að ríkið fer með hlutabréf í dæminu og það hefur að venju verið leitað eftir tilnefningum frá öðrum þingflokkum og það eru fáir dagar þar til aðalfundurinn verður þannig að þetta er í raun bara dagaspursmál hvenær við gerum grein fyrir þeim tilnefningum sem eru komnar.“
Sú heimild sem ég er að vísa til taldi sig vita þetta fyrir víst, var mest undrandi á því að þetta lægi ekki þegar fyrir?
„Já, en þetta er bara ekki rétt.“
En, þú neitar þessu ekki ...
„Nei, sko... þú baðst mig um að staðfesta og ég gat ekki gert það. Þú segist hafa öruggar heimildir og ég segi að þær séu rangar,“ segir Bjarni Benediktsson.
Vísir hefur heyrt nöfn Þórunnar Sveinbjarnardóttur og Álfheiðar Ingadóttur, fyrrverandi þingmanna Samfylkingar og Vinstri grænna nefnd sem þau sem stjórnarandstaðan tilnefnir. Þórunn vildi ekki staðfesta þetta í samtali við Vísi.
„Það kemur bara í ljós. Þetta er algjörlega í höndum á ráðherra, Bjarna Benediktssyni. Hann skipar í stjórnina,“ segir Þórunn.
Bjarni segir Davíð ekki á leið í Landsvirkjun
Jakob Bjarnar skrifar
