Innlent

Ferðalangur virti lokun vega að vettugi

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Björgunarsveitin Vopni
Meðlimir Björgunarsveitarinnar Vopna á Vopnafirði, ásamt meðlimum tveggja annarra björgunarsveita, lögðu af stað í rúmlega 20 tíma útkall í fyrrakvöld. Verkefnið var að bjarga ferðalangi sem sat í föstum bíl á Möðrudalsöræfum.

Austurfrétt sagði frá þessu fyrr í dag.

Meðlimir Vopna, Fjallaskáta og Jökla, alls níu manns á sex jeppum, börðust við snjó og vont veður til að ná til mannsins sem var á fólksbíl. Sá hafði farið framhjá lokunum Vegagerðarinnar við Kröfluafleggjarann í Mývatnssveit.

„Hann virti að vettugi hlið með skiltum sem á stendur á nokkrum tungumálum að vegurinn sé lokaður, það er blikkljós á hliðinu!“ segir á Facebook-síðu Vopna.

Slíkum aðgerðum björgunarsveita fylgir mikill kostnaður og er kostnaður Vopna, án þess að tillit sé tekið til Fjallaskáta og Jökla, um 620 þúsund krónur. Auðvelt hefði verið að komast hjá þessum mikla kostnaði ef ferðalangurinn hefði virt lokun vegarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×