Innlent

"Bjórmottan“ sendir þingmönnum skilaboð

Bjarki Ármannsson skrifar
Fjölpóstar Bjórmotturnar hafa ratað í pósthólf þingmanna.
Fjölpóstar Bjórmotturnar hafa ratað í pósthólf þingmanna. Vísir/Pjetur/Samtök skattgreiðenda
Samtök skattgreiðenda standa um þessar mundir fyrir átaki sem ætlað er að vekja fólk til umhugsunar um hátt áfengisgjald á Íslandi. Á vefsíðunni Bjórmottan er hægt að senda fyrirfram skrifaðan fjöldapóst á þingmenn og krefjast lækkunnar á bjórsköttum. 

Í póstinum stendur meðal annars:

„Nú á 25 ára afmæli afnáms banns við dreifingu og sölu á bjór á Íslandi vil ég nota tækifærið og mótmæla háum sköttum á áfengi og miklum takmörkunum á drefingu þess og sölu.“

„Nú er því kominn tími til að stíga næsta skref og færa skattlagningu á bjór nær því sem algengast er í nágrannalöndum okkar, að sumum Norðurlanda frátöldum, og lækka skatta á bjórnum. Hið opinbera tekur til sín að meðaltali 75% smásöluverðs bjórs hjá ÁTVR í formi ýmissa skatta.“

Fjölmargir virðast hafa nýtt sér möguleikann á að senda bréf af þessu tagi ef marka má orð Eyglóar Harðardóttur félagsmálaráðherra á Facebook í gær. Þar skrifar hún:

„Samkvæmt pósthólfinu mínu virðist lækkun áfengisgjalda vera eitt helsta baráttumálið þessa stundina. Ég skal viðurkenna að betri meðferðarúrræði fyrir börn og ungmenni eru aðeins ofar á forgangslistanum hjá mér.“

Í samtali við fréttastofu fyrir helgi sagðist Skapti Harðarson, formaður Samtaka skattgreiðanda, samtökin hafa sent skilaboð af þessu tagi til allra þingmanna. Hann sagðist þó hæfilega bjartsýnn á að þingmenn tækju til höndum við lækkun áfengisgjalda í náinni framtíð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×