Innlent

Slasaðist eftir að hafa ekið fram af snjóhengju

Stefán Árni Pálsson skrifar
Björgunarsveitin fer með snjóbíl og vélsleða.
Björgunarsveitin fer með snjóbíl og vélsleða.
Björgunarsveitin Stefán á Mývatni er nú á leiðinni að sækja mann sem slasaðist norðan við Hlíðarfjall í Mývatnssveit.

Um er að ræða ferðamann sem var í vélsleðaferð með hópi, en ekki vildi betur til en að hann ók fram af snjóhengju.

Ekki er talið ráðlegt að aka með hann á vélsleðanum til byggða þar sem hann er með verk í baki og fyrir brjósti.

Björgunarsveitin fer með snjóbíl og vélsleða með þotu og börur á staðinn til að flytja manninn.

Sjúkrabíll er einnig á leiðinn og mun taka við honum og flytja á sjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar.

Uppfært klukkan 13:37 - Maðurinn er kominn í sjúkrabíl sem flytur hann á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Maðurinn ók fram af 6 metra hárri hengju og kvartaði yfir verkjum í baki og í brjósti en bar sig þó vel.

Það tók björgunarsveitina aðeins um 40 mínútur að sækja manninn og koma honum í sjúkrabílinn.

Á staðnum hefur verið él eða slydda í morgun og skyggni slæmt. Færið er gott og því væsti ekki um sjúklinginn í börum í þotu aftan í vélseða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×