Innlent

Óvænt loðnuganga fyrir vestan

Vísir/HB Grandi
Vísbendingar eru nú um að óvænt loðnuganga að vestan, sé að koma inn í veiðarnar, eftir að loðnuskip fékk 350 tonn af loðnu í einu kasti út af Ísafjarðardjúpi undir kvöld í gær.

Flotinn, sem þá var við Snæfellsnes, sigldi eins og hann lagði sig á fullri ferð á svæðið í nótt og er nú farinn að leita fyrir sér. Þau hafa dreift úr sér og leita skipulega en um tíu leitið í morgun höfðu þau ekki fundið góðar torfur, hvað sem verður í dag.

Guðmundur Jónsson skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni sagði í viðtali við Fréttastofuna, að þessi loðna tilheyrði ekki torfunni sem nú væri við Snæfellsnes og komin að hrygningu. Það sæist gleggst af því hversu hrognin í vestanloðnunni væru mun skemur komin á þroskabrautinni en í loðnunni við Snæfefllsnes.

Þetta gæti því verið forboði vestangöngu, en dæmi eru um að loðnan komi úr norðvestri og beint að Vesturlandi, í stað þess að synda fyrst hringinn í kringuum landið eins og venjan er.

Ef þetta verður raunin, skapast að líkindum svigrúm til að bæta vel við kvótann, sem er óvenju lítill að þessu sinni, þannig að milljarða viðbótatekjur gætu verið í augnsýn. Tvö hafrannsóknaskip eru væntanleg  á svæðið utan Ísafjarðardjúps, til að kanna málið nánar.    




Fleiri fréttir

Sjá meira


×