Innlent

Freista þess að mæla stærð vestangöngu loðnunnar

Gissur Sigurðsson skrifar
Hafrannsóknastofnun ætlar að senda rannsóknaskip til að freista þess að mæla stærð vestangöngu loðnunnar.
Hafrannsóknastofnun ætlar að senda rannsóknaskip til að freista þess að mæla stærð vestangöngu loðnunnar.
Hafrannsóknastofnun ætlar að senda rannsóknaskip til að freista þess að mæla stærð vestangöngu loðnunnar, sem óvænt fannst út af Ísafjarðardjúpi í fyrradag. Sjómenn líkja ástandinu á miðunum við alvöru loðnuvertíð.

Góð loðnuveiði var úr þessari óvæntu göngu í gær og eru þónokkur skip á landleið með afla, en önnur bíða á miðunum eftir því að loðnan verði veiðanleg upp úr hádegi eins og í gær.

Grétar Rögnvarsson skipstjóri á Jóni Kjartanssyni SU sagði í viðtali við fréttastofuna í morgun að skipin væru stöðugt að finna nýjar og stórar torfur og hafi sum skipanna fengið mjög stór köst í gær, eða eins og á alvöru loðnuvertíð.

Þessi loðna er heldur smærri en sú sem gekk hefðbundna hringleið um landið og er nú farin að hrygna á Breiðafirði.

Hafrannsóknastofnun eru nú að undirbúa Bjarna Sæmundsson til loðnuleitar, og heldur skipið frá Bíldudal vestur á miðin síðdegis eða í kvöld til að reyna að meta þessa óvæntu göngu, sem gæti þýtt að bætt verði við kvótann á vertíðinni.

Hann er liðlega 130 þúsund tonn, en ekki er búið að veiða nema ríflega helming af honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×