Innlent

Gunnar Bragi sendir fulltrúa Íslands til Úkraínu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson.
Gunnar Bragi Sveinsson. VÍSIR/PJETUR
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, hefur ákveðið að senda fulltrúa á vegum íslenskra stjórnvalda til að taka þátt í alþjóðlegu eftirliti á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Úkraínu.

Íslenski fulltrúinn er kominn til Odessa þaðan sem hópurinn mun ferðast til Krímskaga síðar í dag. Stjórnvöld í Úkraínu hafa boðið þátttökuríkjum í ÖSE að senda eftirlitsmennina til Krímskaga til að kanna aðstæður.

„Það er mikilvægt að sitja ekki við orðin tóm vegna aðgerða Rússa og eftirlit ÖSE ríkjanna er mikilvægt til að leiða í ljós hvernig málum er háttað á Krímskaga. Nú reynir á það fyrirkomulag sem ÖSE hefur þróað til að framfylgja alþjóðlegum skuldbindingum um frið og öryggi. Það er ábyrgð okkar sem þátttökuríki í ÖSE að taka þátt í þessu starfi þegar mest á reynir,“ segir Gunnar Bragi í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Eftirlitið byggir á svokölluðu Vínarskjali sem veitir þátttökuríkjum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu heimild til að bjóða ríkjum sem lýst hafa yfir áhyggjum af hernaðarumsvifum að kynna sér frá fyrstu hendi aðstæður á staðnum.

Gert er ráð fyrir að allt að 20 af 57 ríkjum ÖSE taki þátt í eftirlitinu sem stendur til 12. mars næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×