Innlent

Dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir kannabisræktun

Baldvin Þormóðsson skrifar
Málið var áfrýjað til Hæstaréttar.
Málið var áfrýjað til Hæstaréttar. vísir/gva
Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli þrítugs karlmanns sem dæmdur er fyrir að hafa haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 55 kannabisplöntur, rúmlega eittþúsund grömm af kannabislaufum, rúmlega tvöþúsund grömm af kannabisstönglum og sexhundruð grömm af maríjúana-kannabis.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu frá desember 2012 bárust lögreglu upplýsingar um að ræktun kannabis færi hugsanleg fram í íbúð mannsins. Þegar lögreglumenn mættu á staðinn fannst mikil lykt af kannabis koma frá íbúðinni sem opnuð var með aðstoð lásasmiðs.

Samkvæmt munaskýrslu var lagt hald á 55 plöntur á vettvangi og þrjú tjöld, svonefnd ræktunartjöld sem notuð eruð við ræktunina. Einnig hafi verið í íbúðinni marijúana í plastpokum, kannabislauf og kannabisstönglar.

Í skýrslu sem tekin var af ákærða segist hann hafa kynnt sér aðferð við ræktun á internetinu og í framhaldi komið sér upp búnaði. Ákærði hafi ekki verið í vinnu á þessum tíma heldur notið atvinnuleysisbóta. Í lögregluskýrslu er skráð að ákærði hafi svarað því til að hann hafi ætlað að gefa eitthvað af efnunum í jólagjöf.

Ákærði hefur sex sinnum áður gengist undir sáttir eða verið dæmdur fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Með hliðsjón af umfangi brota ákærða og sakaferli hans er refsing ákærða óskilorðsbundið fangelsi í 6 mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×