Innlent

„Það er mjög sterk kaffimenning í Reykjavík“

Baldvin Þormóðsson skrifar
Samkvæmt kaffibarþjónum Stofunnar eru latté og cappuccino þeir algengustu kaffidrykkir sem pantaðir eru.
Samkvæmt kaffibarþjónum Stofunnar eru latté og cappuccino þeir algengustu kaffidrykkir sem pantaðir eru. vísir/stofan
Fréttavefur CNN birti nýverið lista yfir þær átta borgir heimsins sem að miðillinn telur hafa að geyma bestu kaffihúsin.

Fréttavefurinn segir Reykjavík vera meðal stórborga á borð við London, Melbourne og Seattle. Þess má til gamans geta að kaffihúsakeðjan Starbucks á rætur sínar að rekja til Seattle.

CNN telur að vegna skorts á stórum kaffihúsakeðjum þá hafi minni kaffihús haft meiri möguleika á því að blómstra í Reykjavík. Kaffitár er sögð vera stærsta keðjan en kaffihúsið Stofan og Kaffismiðjan eru sérstaklega nefnd fyrir að vera uppáhalds kaffihús svokallaðra hipstera.

„Það er alveg geggjað að þeir hafi valið Stofuna í þessa grein, það kom skemmtilega á óvart,“ segir Haukur Ingi Jónsson, eigandi Stofunnar en hann lýsir kaffihúsinu sem skemmtilega hallærislegu og kósý.

„Við erum með rosalega breiðan hóp af föstum kúnnum sem koma jafnvel daglega, síðan koma líka mikið af ferðamönnum sem eru alltaf mjög ánægðir með okkur,“ segir Haukur stem tekur undir með fréttavefnum að hér sé að finna mjög gott kaffi.

Það er mjög sterk kaffimenning í Reykjavík, fólk er að vanda sig mikið og leggja sig fram við þetta,

Stofan hefur verið vinsæl á meðal kaffiunnenda og hefur eftirspurnin eftir sæti á Stofunni verið svo mikil að Haukur hefur ákveðið að opna kaffihúsið á ný í sögufrægu húsnæði.

Við erum að flytja í húsið þar sem Fríða Frænka var, við stefnum að því að opna í maí. Það er stærra húsnæði en jafnframt rosalega kósý, við viljum halda sama anda innan kaffihússins, segir Haukur sem hefur sterkar skoðanir á kaffihúsum.

„Ég er fastur á því að kaffihús eigi að vera kaffihús. Við erum ekki með neinn djúpsteikingarpott og það er ekkert verið að steikja hamborgara, franskar og slíkt. Það er fyrir veitingastaði en kaffihús eiga að bjóða upp á kaffi, kökur og þessháttar. Þannig hefur stefnan okkar verið og mun halda áfram að vera.“ segir Haukur.

Teiknuð mynd af Stofunni.vísir/stofan



Fleiri fréttir

Sjá meira


×