Innlent

Íslensk kona uppnefnd af Google

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Nafn konunnar er tengt neikvæðu orði á ensku. Myndin tengist fréttinni ekki.
Nafn konunnar er tengt neikvæðu orði á ensku. Myndin tengist fréttinni ekki. Vísir/samsett
Nafn íslenskrar konu úr Kópavogi kemur upp þegar eitt tiltekið styggðaryrði á ensku er slegið inn í þýðingarvélina Google Translate.

Konan hafði ekki heyrt af þessu þegar blaðamaður Vísis hafði samband við hana. „Ég vil engan veginn hafa nafnið þarna inni, sem þýðingu við þetta orð,“ sagði konan. 

Finnur Breki Þórarinsson, starfsmaður Google, sagðist ekki vita hvernig svona mistök gerast. „Ég mun hafa samband við þá úti og láta þá vita af þessu. Ég er ekki viss hvernig svona gerist. Þetta eru mistök. Eftir því sem ég best veit er þýðingarvélin mötuð með fullt af skjölum með þýðingum. Hvernig svona kemur upp er mér ráðgáta,“ segir hann.

Erlendar vefsíður hafa bent á galla í leitarvélinni. Bent hefur verið á fjölda rangra þýðinga en við óformlega könnun á vefnum fundust engin tilfelli þar sem nöfn einstaklinga eru tengd styggðaryrðum á erlendum tungumálum.

Ritstjórn Vísis tók þá ákvörðun að birta ekki nafn konunnar né styggðaryrðið sem þýðingarvélin tengir við hana, í virðingarskyni við konuna.

Veist þú um fleiri slík tilfelli? Ef svo er, endilega hafðu samband við okkur á ritstjórn@visir.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×