Innlent

Hlaut verðlaun á norrænu vísindaþingi skurðlækna

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Bylgjan
Tómas Andri Sveinsson, sjötta árs læknanemi, hlaut önnur verðlaun af tveimur sem veitt voru fyrir besta vísindaerindið á alþjóðlegu vísindaþingi norrænna hjarta- og lungnaskurðlækna sem fram fór í Noregi fyrir skömmu. Þetta er í annað sinn á nokkrum árum sem Íslendingur vinnu þessi verðlaun.

Tómas var gestur í Bítinu á Bylgjunni í morgun, ásamt Tómasi Frey Guðbjartssyni, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir á Landspítalanum.

Tómas Andri kynnti á þinginu rannsókn sem hann hefur verið að vinna á svokölluðum bráðakransæðaaðgerðum. Þar sem fólk í mikilli lífshættu vegna kransæðastíflu fer í skurðaðgerð. Hann segir það erfiða við rannsóknina hafa hve fá tilfellin séu hér á Íslandi, þau séu kannski sex eða sjö á ári.

Þá fór hann á sjúkrahús í Gautaborg þar sem hann fékk upplýsingar um tilfelli síðust sjö ára þar, en þar eru um 40-45 tilfelli á ári.

„Við komum öllu saman í stærri rannsókn, en hún er ekki fullkláruð enn. Við erum enn að safna gögnum og stefnum á að fá enn fleiri sjúklinga inn,“ sagði Tómas Andri.

Tómas Freyr sagði ástæðu þess að Tómas Andri fékk verðlaunin vera að verkefnið hafi mikið vísindalegt gildi, svo hafi hann fengið stig fyrir framsögnina og hvernig hann hafi matreitt erindið ofan í áhorfendur. Þá er sérstök stigagjöf fyrir hvernig spurningum sé svarað.

„Þetta sýnir að það er alveg hægt að framleiða svona vísindi þrátt fyrir að þetta sé lítið land,“ sagði Tómas Freyr. „Núna eru nokkur sjúkrahús til viðbótar sem hafa áhuga á að vinna með okkur að þessu verkefni og stækka rannsóknina enn frekar. Tómas mun leiða þá vinnu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×