Innlent

Biður fólk um að skila inn hættulegum verkjalyfjum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
VISIR/ANTON
Embætti landlæknis hefur haft til skoðunar átta nýleg mál er varða dauðsföll vegna sterkra verkjalyfja.

Þetta kemur fram á vef embættisins.

Í flestum tilvikunum var um að ræða einstaklinga í fíkniefnavanda sem hafa sprautað sig efnunum.

Í mörgum málanna má leiða líkur að því að efnin sem fundust í sýnum hafi átt beinan eða óbeina þátt í dauðsföllunum.

Ef um er að ræða lyf sem eru á markaði hér á landi er kannað hvort þeim hafi verið ávísað á viðkomandi einstakling stuttu fyrir andlát.

Í málum margra einstaklinga sem hafa verið til skoðunar kom hins vegar í ljós að þeir fengu lyfjunum ekki ávísað sjálfir.

„Þetta eru lyf eins og fentanýl (Fentanyl, Durogesic), morfín (Contalgin), tramadól (Tramadol, Tramól, Tradolan, Nobligan, Zytram), oxýkódon (Oxycodone, OxyContin, OxyNorm, Targin), ketóbebidón (Ketogan) og búprenorfín (Norspan, Subutex), sem öll eru eftirsótt meðal fólks sem á við fíknivanda að stríða og tilheyra öll flokki ópíata,“ segir í tilkynningunni.

Fentanýl tilheyrir þessum lyfjaflokki og árið 2013 fengu 483 einstaklingar ávísað fentanýli á Íslandi. Fentanýl er í forðaplástrum sem settir eru á húð og losnar lyfið í gegnum húðina og inn í líkamann en gæta skal sérstakrar varúðar við notkun lyfsins.

Annað lyf í þessum flokki er tramadól sem hefur komið við sögu í u.þ.b. tveimur dauðsföllum á ári að undanförnu en lyfið var ekki eftirritunarskylt, eins og önnur ópíöt, fyrr en 1. janúar 2013.

Embættið brýnir fyrir öllum þeim sem hafa notað ofangreind lyf og eiga afgang af þeim að meðferð lokinni að fara með afganga til eyðingar í næsta apóteki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×