Innlent

Íslendingar hafa gefið tvo milljarða

Hrund Þórsdóttir skrifar
Starfsmenn UNICEF eru þakklátir Íslendingum fyrir stuðning í gegnum árin.
Starfsmenn UNICEF eru þakklátir Íslendingum fyrir stuðning í gegnum árin.
Framlög íslenskra heimsforeldra eru þau hæstu í heiminum og Íslendingar hafa sent yfir tvo milljarða króna til hjálparstarfs í gegnum UNICEF. Samtökin fagna nú tíu ára afmæli sínu hérlendis.

Þegar okkur bar að garði í dag voru starfsmenn UNICEF í óðaönn að undirbúa heimatilbúin myndbönd sem send verða styrktaraðilum og sjálfboðaliðum sem gerðu samtökin að veruleika á sínum tíma.

Framkvæmdastjórinn segir hugmyndina að skrifstofu á Íslandi hafa kviknað hjá hópi ungs fólks. „Til þess að fylkja liði í kringum þessa hugmynd að öll börn eigi rétt og reyna að berjast fyrir réttindum barna úti um allan heim,“ segir Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Frá stofnun samtakanna hérlendis hafa yfir tveir milljarðar safnast. Þar af hafa 59% farið í hjálparstarf fyrir börn um allan heim, 6% í neyðarhjálp  á hamfara- og átakasvæðum og 35% í sérstaka baráttu á vegum íslensku samtakanna. Þannig hafa þau til dæmis byggt 58 grunnskóla í Sierra Leone, dreift 270 þúsund moskítónetum í Gíneu Bissá og bólusett um þrjú hundruð þúsund börn gegn mænusótt í Nígeríu.

Framlögin koma að mestu leyti frá heimsforeldrum sem styðja baráttu samtakanna í hverjum mánuði. Fyrsta heimsforeldrið var skráð árið 2004 en í dag eru þeir yfir 22 þúsund. „Hátt í 10% fullorðinna á Íslandi borga núna mánaðarlega til UNICEF.“

Stefán skynjar viðhorfsbreytingu gagnvart hjálparstarfi. „Mér finnst ég skynja miklu meiri áhuga hjá fólki, miklu meiri skilning og meiri þátttöku í hjálparstarfi. Svo hefur það breyst að við spyrjum ekki lengur hvort við munum ná árangri, heldur hvenær við ætlum okkur að klára verkefnin. Það er mjög stór grundvallarbreyting sem hefur átt sér stað á þessum tíma.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×