Innlent

Rúta fór utan vegar með á sjöunda tug farþega

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
VÍSIR/VILHELM
Miklar annir eru hjá björgunarsveitum vegna ófærðar á Lyngdalsheiði, Mosfellsheiði, Hellisheiði, Þrengslum og á Þingvöllum.

 

Rúta með á sjöunda tug farþega fór útaf í Skógarhlíðarbrekku í Þrengslum. Verið er að sækja fólkið og munu björgunarsveitir flytja það í fjöldahjálparstöð sem Rauði krossinn er að opna í Grunnskólanum í Þorlákshöfn.

 

Á Hellisheiði situr fjöldi bíla fastur en á þessari stundu er ekki vitað nákvæmlega um umfangið. Verið er að flytja 20 manns úr bílum sínum á Lyngdalsheiði og á Mosfellsheiði er talið að á milli 20-30 bílar sitji fastir. Björgunarsveitir eru einnig að sækja ferðafólk sem kemst ekki leiðar sinnar af Þingvöllum en það bíður aðstoðar í Þjónustumiðstöðinni.

Björgunarsveitin Ingunn á Laugarvatni hefur verið kölluð út á Lyngdalsheiði til að losa fasta bíla en Vegagerðin mun loka veginum yfir heiðina að því verki loknu.

Mikil umferð hefur verið yfir heiðina síðan í morgun, bæði einkabílar og rútur, þrátt fyrir slæma færð og vont veður.

Erlendir ferðamenn sitja fastir í bíl á afleggjarnum að Reynisvatni og vinnur björgunarsveitin Víkverji í Vík að því að losa þá. Þá aðstoðar Flugbjörgunarsveitin í Varmahlíð ferðafólk í ógöngum í Skiptabakka.

Veðurstofa Íslands hefur varað við stormi víða um land í dag og fram á nótt. Einnig er búist við mikilli úrkomu suðaustanlands síðdegis og hvössum vindhviðum við fjöll, einkum sunnan- og vestanlands.

Slysavarnafélagið Landsbjörg minnir fólk á að vera ekki á ferðinni þar sem veður er slæmt nema brýna nauðsyn beri til og þá aðeins á vel búnum bílum. Einnig er tilefni til að árétta að ætíð skal virða lokanir vega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×