Innlent

Fyrsta mislingatilfellið í 18 ár

Bjarki Ármannsson skrifar
Langflest börn á Íslandi fá bólusetningu gegn mislingum.
Langflest börn á Íslandi fá bólusetningu gegn mislingum. Vísir/Getty

Mislingatilfelli hefur verið staðfest hjá 13 mánaða gömlu barni en þetta er í fyrsta sinn frá árinu 1996 sem veikin greinist hér á landi. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu Landlæknis í dag.

Barnið er búsett á Íslandi en var nýverið ásamt fjölskyldu sinni á ferðalagi erlendis. Það er nú á góðum batavegi heima hjá sér. Barnið er ekki bólusett, en samkvæmt Landlækni eru allt 95 prósent barna hér á landi bólusett gegn mislingum ásamt rauðum hundum og hettusótt.

Mislingaveiran er mjög smitandi og berst til dæmis á milli manna með hósta og hnerra. Einkenni mislinga koma fram um 10 til 12 dögum eftir smit og geta verið mismikil eftir einstaklingum, þó er í flestum tilfellum um að ræða hita, hósta, nefrennsli og útbrot. Ekki er búist við að mislingar nái mikilli útbreiðslu hér á landi sökum skilvirkrar bólusetningar.

                                                                                                         




Fleiri fréttir

Sjá meira


×