Innlent

Gefa í skyn að fjármálaráðherra hafi skrökvað

Heimir Már Pétursson skrifar

Tveir þingmenn stjórnarandstöðunnar gefa í skyn að Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra, hafi sagt Alþingi ósatt til um kostnað við málaferli seðlabankastjóra í svari á Alþingi. Katrín segir það alrangt enda komi það fram í svarinu.

Ásmundur Einar Daðason þingmaður Framsóknarflokksins og sérstakur aðstoðarmaður forsætisráðherra segir í bloggfærslu á Eyjunni í gærkvöldi að Katrín Júlíusdóttir hafi sagt Alþingi ósatt í skriflegu svari sem hún gaf honum varðandi hver bæri kostnað af málaferlum seðlabankastjóra gegn bankanum vegna launakjara hans. En upplýst hefur verið að bankinn greiddi þann kostnað.

Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður Sjálfstæðisflokksins tekur málið svo upp á sinni bloggsíðu og furðar sig á málinu. Katrín svarar fyrirspurn Ásmundar í janúar 2013 en héraðsdómur hafði kveðið upp dóm í október um að hver málsaðili um sig greiddi sinn málskosnað og kemur það fram í svari Katrínar.

Varst þú að fara með ósannindi í svari þínu á Alþingi í janúar í fyrra?

“Nei, það var ég alls ekki að gera og það kemur beinlínis fram í svarinu að málaferli standi enn yfir og því byggi upplýsingarnar á þeirri stöðu. Þannig að á þeim tíma voru þetta þær bestu upplýsingar sem við höfðum,” segir Katrín.  En þegar svarið var gefið hafði Hæstiréttur ekki kveðið upp sinn dóm, en í svari Katrínar segir:

“Seðlabankastjóri áfrýjaði dómi héraðsdóms til Hæstaréttar, sem hefur tekið málið til meðferðar, og því liggur ekki fyrir á þessari stundu hvort þessi niðurstaða er endanleg”.

En Hæstiréttur kvað upp sinn dóm skömmu fyrir kosningar í fyrra.

“Og við höfðum ekki fengið neinar upplýsingar um að það hefði verið tekin ákvörðun um að greiða kostnað seðlabankastjóra í málaferlunum,” segir Katrín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×