Innlent

Hagsmunum kvenna má ekki fórna

Birta Björnsdóttir skrifar
Þó margvíslegur árangur hafi náðst í réttindamálum kvenna í Afganistan er það engu að síður staðreynd að 87% kvenna þar í landi hafa orðið fyrir einhverskonar ofbeldi.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var fjallað um stöðu kvenna í Afganistan og meðal annars var rætt við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem starfaði á vegum Sameinuðu þjóðanna þar í landi í fyrra.

Þær Hrafnhildur Gunnarsdóttir og Halla Kristín Einarsdóttir dvöldu í Afganistan í lok síðasta árs og tóku viðtöl við fleiri konur sem eiga það sameiginlegt að hafa látið réttindabaráttu kvenna sig varða. Þær eru allar sammála um að í ár sé mikilvægara en nokkru sinni að standa vaktina þegar kemur að réttindum kvenna í landinu.

„Staðan í landinu er svolítið sérstök núna. Það eru bæði forsetakosningar og þingkosningar framundan auk þess sem allt erlent herlið er á leið úr landinu á árinu,“ segir Ingibjörg Sólrún.

Undir orð hennar tekur afganska þingkonan Fawzia Koofi.

„Fólk er bjartsýnt en um leið mjög áhyggjufullt. Það verður að styrkja stöðu kvenna og auka áhrif þeirra í stjórnmálum. Það er forsenda þess að einhverjar breytingar verði á þeirra högum í landinu. Þó menntun og aukin fjárráð kvenna séu vissulega mikilvæg er þátttaka þeirra í stjórnmálum enn mikilvægari," segir Fawzia.

„Kosningarnar sem framundan eru munu ákvarða framtíð Afganistan," segir Mahbuba Seraj, stjórnarformaður Afghan Women's Network.

„Það má ekki slaka á kröfum um aukið jafnrétti því við erum að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir."

Ekki litið á konur sem manneskjur

Það liggur fyrir að Bretar og Bandaríkjamenn muni draga allt herlið sín til baka úr landinu áður en árið er liðið. Þá ríður á að vera í góðum samskiptum við alþjóðasamfélagið.

„Það er gríðarlega mikilvægt. Meðal annars til þess að veita stuðning öllum þeim flottu konum sem eru að berjast fyrir jafnrétti í landinu. Þær þarf að bakka upp,“ segir Ingibjörg Sólrún.

„Það þarf líka að veita stjórnvöldum aðhald með því að halda góðri tengingu við alþjóðasamfélagið. Stjórnvöld hér hafa samþykkt alls kyns skilmála og reglugerðir þar sem þeim er gert að standa vörð um réttindi kvenna. Það þarf að fylgjast með því að þessar reglur verði ekki brotnar,“ segir Fawzia.

Þar sem erlendur her er á leið úr landinu hafa margir velt upp þeirri spurningu hvort talibanar komi til með að reyna að berjast til valda á nýjan leik, eða hvort stjórnvöld í Afghanistan séu nógu stöndug til að halda stjórninni í landinu.

„Í stjórnartíð talíbana var ekki litið á konur sem manneskjur. Þær máttu ekki ganga í skóla og máttu ekki fara til læknis nema í fylgd karlmanna,“ segir Fawzia.

Ingibjörg Sólrún segir að á endanum þurfi stjórnvöld að semja við talíbana, en áhyggjuefnið sé þá vissulega að réttindum kvenna verði fórnað á því altari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×