Sport

Tvöfalt hjá Kanada í skíðaati | Myndband

Marielle Thompson frá Kanada vann sigur í skíðaati kvenna á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí í dag en Kanadamenn fengu bæði gull og silfur.

Fjórar skíðuðu til sigurs í úrslitum í dag og var Thompson í forystu nær allan tímann. Hún kom í mark á undan samlanda sínum Kelsey Serwa en Anna Holmlund frá Svíþjóð fékk bronsið.

Sú fjórða sem keppti til úrslita, Ophélie David frá Frakklandi, gat orðið elsta konan til að vinna til verðlauna á Vetrarólympíuleikum. Hún missti aftur á móti jafnvægið um miðja braut og datt og þar með var sá draumur úr sögunni.

Marielle Thompson vann silfur í skíðaati á heimsmeistaramótinu í skíðafimi sem haldið var í Moss í Noregi í fyrra og bætir nú Ólympíugulli í safnið.

Skíðaat kvenna var síðasta greinin í skíðafimi á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí sem lýkur á sunnudaginn og endaði Kanada sem sigursælasta þjóðin í þeim greinum sem falla undir skíðafimi.

Kanada fékk níu verðlaun af þeim 30 sem í boði boru í skíðafimi í Sotsjí (4 gull, 4 silfur og 1 brons) en Bandaríkjamenn komu næstir með sjö verðlaun (3 gull, 2 silfur og 2 brons). Frakkar með fimm verðlaun (1 gull, 2 silfur og 2 brons) komu þar næstir.

Marielle Thompson fagnar sigri.Vísir/Getty

Tengdar fréttir

Bein útsending frá ÓL 2014 | Dagur 14

Vísir er með beina útsendingu frá keppni á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí í Rússlandi en fjórtándi keppnisdagur leikanna er í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×