Sport

Norðmenn unnu tvöfalt í sprettgöngunni | Myndband

Norðmenn unnu sigur í sprettgöngu karla- og kvenna á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí í dag.

Maiken Caspersen Falla frá Noregi komst fyrst í mark í úrslitum kvenna og tryggði sér Ólympíugullið en hún kláraði brautina á 2:35,49 mínútum.

Önnur norsk stúlka, Ingvild Östberg, fékk silfrið en hún og hin slóvenska Vesna Fabjan komu í mark nánast á sama tíma.

Þegar endasprettur þeirra var skoðaður nánar kom í ljós að Östberg kom í mark 2/100 úr sekúndu á undan Fabjan og fékk sú slóvenska því bronsið.

Sigur Norðmanna var tvöfaldur því Ola Vigen Hattestad kom fyrstur í mark í úrslitum karla á 3:38,39 mínútum.

Annar varð Svíinn Teodor Peterson sem reyndi að hafa Hattestad á endasprettinum en gafst upp þegar hann sá að Norðmaðurinn var of sterkur og fagnaði silfrinu vel.

Baráttan um bronsið var svakaleg því í erfiðustu beygju brautarinnar duttu Svíinn Emil Jönsson, Norðmaðurinn Anders Glöersen, og Rússinn Sergey Ustigov.

Annar Svíi, Marcus Hellner, var þá þegar búinn að gefast upp og þurftu þremenningarnir að rífa sig á fætur og leggja af stað í baráttu um bronsverðlaun.

Það fór svo að Svíinn Emil Jönsson kom þriðji í mark og fagnaði bronsi í ótrúlegri úrslitagöngu.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×