Sport

Slógu við tveimur bræðrum og tóku gullið | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þjóðverjar hafa verið afar sigursælir í baksleðakeppni Vetrarólympíuleikanna í Sotsjí og þeir fengu enn eitt gullið í kvöld þegar Tobias Wendl og Tobias Arlt unnu gull í tvímenningi karla.

Tobias Wendl og Tobias Arlt eru báðir 26 ára gamlir og þeir komu í mark 0,522 sekúndum á undan austurrísku bræðrunum Andreas og Wolfgang Linger sem þykir mikill munur í þessari grein. Andreas og Wolfgang Linger áttu titil að verja en þeir unnu gullið fyrir fjórum árum.

Aðrir bræður, Andris og Juris Sics frá Lettlandi, urðu síðan í þriðja sæti og fengu brons. Andris og Juris Sics unnu silfur í Vancouver fyrir fjórum árum.

Þetta eru þriðju gullverðlaun Þjóðverjar í Sotsjí en Natalie Geisenberger vann á einmenningi kvenna og Felix Loch á einmenningi karla. Þjóðverjar eru einnig afar sigurstranglegir í liðakeppninni á morgun.

Tobias Wendl og Tobias Arlt áttu frábæra fyrri ferð þar sem þeir settu brautarmet með því að koma í mark á 49,373 sekúndum og gátu leyft sér að koma í mark í seinni ferðinni á "bara" 49,560 sekúndum.

Austurríkismennirnir Peter Penz og Georg Fischer voru í þriðja sæti eftir fyrri ferðina en gekk skelfilega í þeirri síðari og enduðu að lokum í síðasta sætinu.

Það er hægt að sjá myndband með nýju Ólympíumeisturunum hér fyrir ofan.

Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×