Sport

Fjórir Þjóðverjar unnu öll sitt annað Ólympíugull í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólympíumeistararnir Natalie Geisenberger, Felix Loch, Tobias Wendl og Tobias Arlt.
Ólympíumeistararnir Natalie Geisenberger, Felix Loch, Tobias Wendl og Tobias Arlt. Vísir/Getty
Það kom nú ekki mikið á óvart að Þjóðverjar skildu taka gullverðlaunin í kvöld í liðakeppni í baksleðabruninu á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí í Rússlandi.

Þjóðverjar hafa haft algjöra yfirburði í greininni á þessum Vetrarleikum og unnu öll fjögur gullverðlaunin í boði í baksleðakeppninni í Sotsjí.

Nú var keppt í liðakeppninni í fyrsta sinn en þetta er í raun boðkeppni þar sem keppendurnir renna sér hver á fætur öðrum, fyrst kona á einmenningi, þá karl á einmenningi og loks tveir karlar á tvímenningi.

Natalie Geisenberger, Felix Loch og þeir Tobias Wendl og Tobias Arlt voru öll búin að vinna gull á leikunum og lönduðu nú öruggu gulli í liðakeppninni.

Allir keppendur Þjóðverja í liðakeppninni náðum bestum tíma í sínum hluta og þýska sveitin endaði meira en einni sekúndu á undan rússnesku sveitinni sem vann silfrið. Bronsið fór síðan til Lettlands.

Þjóðverjar unnu 2 af 3 gullum í boði í Vancouver fyrir fjórum árum og 1 af 3 gullverðlaunum í Tórínó árið 2006.

Síðasta "sóp" í baksleðabruni á Vetrarólympíuleikunum var þegar Þjóðverjar unnu öll þrjú gullverðlaunin í boði á Vetrarólympíuleikunum í Naganó árið 1998.

Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×