Innlent

Flugmanni dæmdar miskabætur vegna ólögmætrar uppsagnar

Manninum var gefið að sök að hafa dregið flugfreyju að sér og reynt að koma á hana kossi í óþökk alls fimm eða sex sinnum í ásýnd farþega.
Manninum var gefið að sök að hafa dregið flugfreyju að sér og reynt að koma á hana kossi í óþökk alls fimm eða sex sinnum í ásýnd farþega. Mynd/Pjetur
Fyrrum flugmanni Icelandair voru í gær dæmdar miskabætur að upphæð 800 þúsund krónur vegna ólögmætrar uppsagnar. Honum var sagt upp þar sem hann þótti hafa sýnt af sér óviðeigandi hegðun og kynferðislega áreitni í flugi frá Kaupmannahöfn og ógnandi tilburði við flugvirkja eftir komuna til Keflavíkur.

Málið á rætur sínar að rekja til þess að maðurinnn var á heimleið sem farþegi með farþegaflugvél Icelandair frá Hollandi í ágúst árið 2010 eftir að hafa lokið verkefni á vegum félagsins í Belgíu.

Borinn þungum sökum

Manninum var á fundi með flugrekstrarstjóra og starfsmannastjóra Icelandair í byrjun september sama árs gefið að sök að hafa sýnt af sér ógnandi hegðun, kynferðislega áreitni og mikla ölvun um borð í vél á leið heim frá Kaupmannahöfn, þar sem vélin hafði millilent. Á fundinum var hann beðinn um að svara fyrir sig. Um miðjan september var hann aftur boðaður á fund með starfsmannastjóra Icelandair þar sem honum var tjáð að hann ætti ekki lengur samleið með flugfélaginu og honum yrði vikið úr starfi.

Með bréfi frá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna frá 1. október 2010 var uppsögninni mótmælt sem tilefnislausri og ólögmætri og í kjölfarið stefndi flugmaðurinn Icelandair.

Töldu uppsögnina lögmæta

Icelandair byggði á því að uppsögnin hafi verið lögmæt, flugmaðurinn hafi með hegðun sinni gerst sekur um vítavert brot gegn ráðningarbundnum skyldum sínum. Hafi flugmaðurinn í umræddu flugi dregið flugfreyju að sér og reynt að koma á hana kossi í óþökk í hvert sinn sem hún veitti honum mat eða aðrar veitingar, alls fimm eða sex sinnum í ásýnd farþega. Einnig hafi hann sýnt flugvirkja ógnandi tilburði eftir komuna til Keflavíkur.

Flugmaðurinn hafi verið sendur til Reykjavíkur með annarri bifreið Kynnisferða en áhöfnin og hafi einnig verið kvartað yfir framkomu hans þar. Hegðun hans og framkoma hafi því falið í sér mjög alvarlegt brot á starfsskyldum.

Þá taldi Icelandair að alvarleiki brotsins verði einnig að skoðast í því ljósi að flugmaðurinn hafi verið kallaður fyrir forstjóra árið 1998 vegna kynferðislegrar áreitni af hans hálfi sama ár.

Hæstiréttur féllst á miskabætur

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að þótt ljóst væri að hegðun flugmannsins hafi verið með þeim hætti að ekki sæmdi stöðu hans, þá sé hegðunin ekki þess eðlis að hún gæti réttlætt fyrirvaralausa uppsögn.

Þá var Icelandair ekki talið hafa veitt flugmanninum áður áminningu vegna óviðeigandi hegðunar en telja yrði að slíkt væri forsenda þess að Icelandair væri heimilt að rifta ráðningarsamningnum. Auk þess var Icelandair talið hafa gengið lengra í ávirðingum gagnvart flugmanninum en efni stóðu til. Féllst Hæstiréttur því á miskabótakröfu mannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×