Sport

Datt illa í Ólympíubrautinni og endaði á spítala

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd Rowan Cheshire á twitter-síðu sinni.
Mynd Rowan Cheshire á twitter-síðu sinni. Mynd/Twittersíða Rowan Cheshire
Breska skíðafimikonan Rowan Cheshire endaði á spítala eftir að hafa dottið illa á andlitið á æfingu fyrir keppni á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí í Rússlandi.

Margir keppendur hafa kvartað yfir skíða- og snjóbrettabrautunum í Sotsjí sem sumir hafa hreinlega kallað slysagildru.  Fjölmörg óhöpp hafa síðan stutt þá skoðun þeirra.

Rowan Cheshire er 18 ára gömul og hafði á dögunum unnið sitt fyrsta HM-mót í Calgary. Cheshire er númer sjö á heimslistanum en góð frammistaða að undanförnu gaf góð fyrirheit um að hún gæti keppt um verðlaun á ÓL.

Cheshire á að keppa í hálfpípukeppninni á fimmtudaginn en nú er óvíst hvort að hún geti keppt. Hún þarf að fá leyfi lækna sem munu skoða hana vel á næstu dögum.

Rowan Cheshire birti mynd af sér á twitter-síðu sinni þar sem sér vel á stelpunni. Það er hægt að sjá hana hér fyrir neðan. Hún missti meðvitund í nokkrar mínútur eftir fallið.

Keppni á snjóbrettum hefur ekki enn byrjað í dag vegna þoku og veðrið ætlar að stríða mönnum áfram í Sotsjí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×