Sport

Rússar í sárum eftir tap gegn Finnum | Myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Draumur Rússa um gull í íshokkí karla varð að engu í dag er liðið féll úr leik í fjórðungsúrslitum eftir tap gegn Finnum, 3-1.

Rússar unnu síðast gull í greininni fyrir 22 árum síðan en það hefur verið stefnt að því endurheimta gullið á heimavelli síðan ljóst varð að leikarnir yrðu haldnir í Sotsjí.

„Ég er algjörlega tómur að innan,“ sagði Pavel Datsyuk, fyrirliði rússneska landsliðsins eftir tapið í dag. Hann bætti við að Ólympíuleikarnir í Sotsjí væru mikilvægasta mótið á ferilnum hans.

Sovétríkin og Rússland hafa unnið gull í íshokkí karla alls átta sinnum en aldrei síðan á leikunum í Albertville árið 1992.

Ilya Kovalchuk kom þó Rússum yfir snemma leiks en það reyndist eina mark þeirra í leiknum. Teemu Seelence, Juhamatti Aaltonen og Mikael Granlund skoruðu mörk Finna og tryggði þeim leik gegn Svíum í undanúrslitum.

Tuukka Rask átti einnig góðan leik í marki Finna og varði alls 37 skot. Finnar áttu alls 22 skot að marki í dag.

Fyrr í dag unnu Svíar öruggan sigur á Slóveníu í sinni viðureign í fjórðungsúrslitum.

Vladímír Pútin var vonsvikinn eins og aðrir Rússar með úrslit dagsins.Vísir/Getty
Vísir/Getty

Tengdar fréttir

Bein útsending frá ÓL 2014 | Dagur 12

Vísir er með beina útsendingu frá keppni á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí í Rússlandi en tólfti keppnisdagur leikanna er í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×