Unglingspilturinn sem var í fyrradag sakfelldur fyrir manndrápstilraun á níu ára stúlku var útskrifaður af Barna- og unglingageðdeild Landsspítalans (BUGL) daginn áður en hann réðst á stúlkuna. Starfsmenn Barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar mótmæltu ákvörðuninni. Þeim þótti full ástæða til að ætla að drengurinn gæti verið hættulegur sjálfum sér og umhverfi sínu og að hann ætti að vera áfram á BUGL.
Árásin átti sér stað 27. apríl í fyrra, en drengurinn var útskrifaður af BUGL þann 26. apríl.
Þetta kemur fram í lögregluskýrslu sem var notuð fyrir dómi.
Þar segir ennfremur að um mánuði áður en drengurinn reyndi bana níu ára stúlkunni braust hann inn hjá skólasystur sinni vopnaður hnífi. Innbrotið átti sér stað 26. mars. Drengurinn hafði í hyggju að meiða stúlkuna. Enginn var á heimili stúlkunnar þegar drengurinn braust inn. Hann réðst á mann í næsta húsi sem reyndi að yfirbuga drenginn. Lögreglan var kölluð á vettvang og var drengurinn handtekinn og var vistaður í fangageymslu lögreglu um nóttina
Daginn eftir var hann fluttur á meðferðarstöðina Stuðla og var hann þar í tvær vikur. Hann var heima hjá sér í einn sólarhring en þann 11. apríl óskuðu starfsmenn Barnaverndarstofu Hafnarfjarðar eftir því að lögregla flytti drenginn á BUGL, vegna hegðunarvandamála. Í lögregluskýrslunni kemur fram að upphaflega stóð til að vista drenginn á BUGL til 29. apríl og átti læknir þá að meta ástand hans.
Pilturinn útskrifaður af BUGL degi áður en hann réðst á stúlkuna
Kjartan Atli Kjartansson skrifar
