Innlent

Kjánalegar tilraunir hjá Alþingi

Höskuldur Kári Schram skrifar
Jón Gnarr borgarstjóri segir að ítrekaðar tilraunir Alþingis til að taka skipulagsvaldið af Reykjavikurborg séu kjánalegar. Reykjavík geti vel sinnt hlutverki sínu sem höfuðborg þó flugvöllurinn verði fluttur úr Vatnsmýrinni.

Í frumvarpi sem Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, þáverandi forseti Alþingis, lagði fram í mars á síðasta ári var gert ráð fyrir því að Alþingi og Reykjavíkurborg myndu deila með sér skipulagsvaldi á svæði í kringum Alþingishúsið. Það mál var aldrei afgreitt. Alþingi hefur einnig margítrekað lýst yfir óánægju með skipulag á Landsímareitnum og þá hefur Höskuldur Þórhallson, þingmaður Framsóknarflokks, lagt fram þingsályktunartillögu um að ríkið fái skipulagsvaldið í Vatnsmýrinni.  Jón segir að tilraunir Alþingis til að taka skipulagsvaldið frá Reykjavíkurborg séu kjánalegar.

„Skipulagsvaldið er hjá sveitarstjórnum samkvæmt stjórnarskránni. Það er lang best geymt hjá sveitarfélögum og í höndum fagfólks,“ segir Jón og gagnrýnir umræðuna um flugvöllinn. „Þessi umræða er að miklu leyti pólitísk og tengist valdamiklum aðilum sem eiga hagsmuna að gæta í málinu,“  segir Jón en vill þó ekki segja hvaða aðilar það eru.

Jón segir að Reykjavík geti vel sinnt hlutverki sínu sem höfuðborg þó flugvöllurinn verði færður á annan stað. „Borgin hefur þróast þannig að þessi flugvöllur er núna í miðborg Reykjavíkur. Það er bara vitleysa. Ég veit að þessi flugvöllur mun fara og þarna koma hús. Það mun koma nýr flugvöllur á öðrum stað og allir verða ánægðir,“ segir Jón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×