Innlent

Orðlaus yfir góðvild fólks

Birta Björnsdóttir skrifar
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var viðtal við Sædísi Ölmu Sæbjörnsdóttur, sem missti allt sitt í bruna í Hraunbænum í fyrrinótt. Sædís og Jóhann, unnusti hennar, komust út úr íbúðinni, ásamt frænku Sædísar. Jóhann fór svo inn í logandi íbúðina og bjargaði móður Sædísar út.

Sædís Alma er nítján ára og á von á sínu fyrsta barni innan skamms. Þau Jóhann voru búin að kaupa allt sem til þurfti fyrir barnið, en það gjöreyðilagðist allt í brunanum.  Fréttin hreyfði greinilega við mörgum og hafa fjölmargir haft samband við Sædísi og viljað leggja henni lið.

"Við erum í raun alveg orðlaus," sagði Sædís í samtali við fréttastofu.

Í gær komu tveir ókunnugir menn færandi hendi og gáfu Sædísi ýmiskonar fatnað og hluti fyrir barnið. Þá hafa samtökin Hjálparsamtök Íslendinga haft milligöngu um að safna fé og hlutum fyrir þau Sædísi og Jóhann. Þau segjast þessu fólki og öllum hinum óskaplega þakklát.

Jóhann segir góðvild fólks hvetja þau til svipaðra verka og þau séu þess fullviss að þau muni eftir fremsta megni reyna að aðstoða fólk í framtíðinni sem lendir í álíka hremmingum.

Á mánudaginn fá þau Sædís og Jóhann að fara inn í íbúðina sem brann og þá skýrist betur hvað tekur við hjá þeim og hvaða húsnæðisúrræði standa þeim til boða.

Viðtalið má sjá í heild sinni í meðfylgjandi myndbandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×